Jude Bellingham er einn vinsælasti leikmaður heims um þessar mundir en hann leikur með Real Madrid.
Bellingham spilaði með Real í 1-1 jafntefli við RB Leipzig í Meistaradeildinni í vikunni og mætti í stutt viðtal við blaðamanninn virta Guillem Balague eftir leik.
Balague hefur fengið gagnrýni frá ensku goðsögninni Jamie Carragher en hann starfar sem sparkspekingur hjá CBS í dag.
Carragher hefur verið ósáttur við fataval Balague og lætur hann vita reglulega en Bellingham kom blaðamanninum til varnar sem var ansi skemmtilegt.
,,Þú lítur bara frábærlega út í kvöld vinur,“ sagði Bellingham við Balague.
Englendingurinn tjáði sig í kjölfarið um Carragher: ,,Ég hef séð jakkafötin sem Jamie ákveður að klæðast og ég er efins. Ég held að þú getir svarað fyrir þig.“
Carragher gat ekki annað en hlegið í beinni útsendingu: ,,Hann er stórkostlegur. Hann er ótrúlegur, ekki satt?“