Það er útlit fyrir það að Lionel Messi fái ekki að kveðja Barcelona almennilega en hann er leikmaður Inter Miami í dag.
Frá þessu greinir Mundo Deportivo en Barcelona vonaðist eftir því að leika æfingaleik við Miami í sumar en fékk ekki ósk sína uppfyllta.
Messi er þekktastur fyrir tíma sinn sem leikmaður Barcleona en hann hélt til Paris Saint-Germain í tvö ár og svo til Miami á síðasta ári.
Messi er 36 ára gamall og er útlit fyrir að hann snúi ekki aftur til Barcelona sem leikmaður eins og margir bjuggust við.
Barcelona hefur gefið það upp á bátinn að fá Messi aftur í sínar raðir en vildi skipuleggja vináttuleik við Miami þar sem Messi gæti fengið að hitta sína helstu stuðningsmenn í síðasta sinn.
Miami neyddist til að hafna boði Barcelona vegna eigin leikjaálags í sumar og þá mun Messi sjálfur spila með Argentínu á Copa America síðar á árinu.