Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, er alls ekki að missa trúna á framherjanum Darwin Nunez sem er ekki beint markheppinn í dag.
Nunez hefur átt erfitt með að skora á þessu tímabili en lagði upp tvö mörk í bikarnum gegn Fulham í vikunni.
Klopp er mikill aðdáandi sóknarmannsins sem hefur skorað aðeins eitt mark í síðustu 16 leikjum sínum.
,,Hann spilar stórkostlega, ég verð að viðurkenna það. Það eru svo margir hlutir sem ég elska við hans leik,“ sagði Klopp en Nunez hefur lagt upp tíu mörk í vetur.
,,Fyrsta árið var ár til að aðlagast og hann skoraði á því tímabili en nú er hann að gera enn meira fyrir liðið.“
,,Við erum ekki að velja leikmenn út frá því hvort þeir skori eða skori ekki. Ég treysti á þessa leikmenn svo lengi sem þeir haga sér fagmannlega.“
,,Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra stöðu Darwin. Hann gerir allt rétt en samt fer boltinn ekki inn en hann leggur upp fyrir liðsfélaga sína.“