Lionel Messi og fjölskylda hans þurftu að taka erfiða ákvörðun þegar þau ákváðu að flytja frá Evrópu og til Bandaríkjanna í sumar.
Messi gekk í raðir Inter Miami í MLS deildinni í sumar frá Paris Saint-Germain en þar áður var hann auðvitað hjá Barcelona.
Argentínumaðurinn var í viðtali við grínistann Migue Granados á dögunum. Í samtali þeirra kom fram að hundur Messi og fjölskyldu af tegundinni Bordeaux Mastiff hafi orðið eftir í Barcelona.
„Ég spurði hann hvar hundurinn væri og hann sagði mér að hann væri í Barcelona, hann væri orðinn gamall svo þau hafi þurft að skilja hann eftir,“ segir Granados en ekki er talið að hundurinn eigi mikið eftir.
Messi hefur farið á kostum í búningi Inter Miami það sem af er.