Stuðningsmaður Newcastle var stunginn í aðdraganda leiks liðsins gegn AC Milan í dag. Þetta kemur fram í ítölskum miðlum.
Newcastle heimsækir Milan í Meistaradeld Evrópu seinni partinn og er því fjöldi stuðingsmanna enska liðsins í ítölsku borginni.
Samkvæmt fréttum réðst hópur manna, sjö eða átta talsins, að 58 ára gömlum stuðningsmanni Newcastle seint í gærkvöldi og króuðu hann af. Síðan stungu þeir hann.
Lögreglu tókst sem betur fer að skerast í leikinn og koma manninum á sjúkrahús.
Orsök árásarinnar er óljós.