Það styttist heldur betur í endurkomu Gylfa Þórs Sigurðssonar á knattspyrnuvöllinn. Enskir miðlar hafa mikinn áhuga á þessu og fjalla um endurkomu Íslendingsins.
Gylfi hefur ekki spilað fótbolta í meira en tvö ár eða frá því hann lék með Everton vorið 2021 í ensku úrvalsdeildinni.
Nú er kappinn mættur til Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni. Hann hefur verið að koma sér í gang undanfarnar vikur og segir Freyr Alexandersson, þjálfari liðsins, að hann gæti snúið aftur á völlinn gegn Vejle á föstudag.
„Við erum aðeins á undan áætlun. Gylfi gæti vel spilað á föstudag. Við vonum að hann verði í hópnum þar en ef ekki þá allavega í næstu viku,“ sagði Freyr við danska miðla.
„Hann lítur mjög vel út. Hann hefur æft á fullu undanfarnar fjórar æfingar og lítur betur og betur út.“
Freyr er eðlilega mikill aðdáandi Gylfa, en hann starfaði áður með honum hjá íslenska landsliðinu.
„Varnarvinna hans og pressa hans eru þættir leiksins sem hann er vanmetinn í. Hann er ótrúlega góður í þessu.“