Stuðningsmenn Manchester United voru sérstaklega pirraðir á einum leikmanni liðsins eftir tap gegn FC Kaupmannahöfn í gær.
United komst 0-2 yfir í gær en leikurinn breyttist við afar umdeilt rautt spjald sem Marcus Rashford fékk seint í fyrri hálfleik og fór FCK að lokum með 4-3 sigur. Enska liðið er á botni síns riðils í Meistaradeildinni eftir úrslitin.
Sofyan Amrabat, sem er hjá United á láni frá Fiorentina, heillaði stuðningsmenn United vægast sagt ekki í leiknum í gær en hann spilaði seinni hálfleik.
„Það er eins og Amrabat hafi unnið einhvern leik til að fá að spila með United,“ skrifaði einn stuðningsmaður um Amrabat, sem hefur farið illa af stað í treyju United.
„Við erum svo heppin að Amrabat er bara lánsmaður,“ skrifaði annar.
„Við eyddum sumrinu í að eltast við Amrabat og hann er ekki nógu góður til að reyma skóna hans Fred,“ skrifaði enn annar stuðningsmaður United.