Það eru margir sem þekkja söguna af því af hverju Zlatan Ibrahimovic skrifaði aldrei undir samning við Arsenal.
Ungur Zlatan fékk boð frá Arsene Wenger á sínum tíma, þáverandi stjóra Arsenal, um að koma á reynslu hjá félaginu.
Zlatan rifjaði upp þessa sögu í viðtali við Piers Morgan fyrir helgi en Zlatan tók það ekki í mál að fara á reynslu hjá félaginu.
Hann vildi fá samning um leið eða labba út um dyrnar og snúa aldrei aftur sem varð raunin.
,,Þegar ég var ungur þá voru mörg lið sem sýndu mér áhuga og eitt af þeim var Arsenal. Ég gekk inn á skrifstofu herra Arsene Wenger og þetta varð fljótt mjög stórt,“ sagði Zlatan.
,,Ég sá allar þessar stjörnur, Dennis Bergkap, Freddie Ljungberg, Patrick Vieira, Thierry Henry og hugsaði með mér að þetta væri risaskref því ég hafði séð þessa leikmenn í sjónvarpinu.“
,,Wenger spurði mig hvað ég vildi, hann vildi kynnast mér, hann er ekki aðili sem kaupir bara einhvern leikmann, hann vill held ég vita hvað hann er að kaupa.“
,,Hann bað mig svo um mæta á reynslu í tvær vikur. Ég svaraði einfaldlega að það væri ekki ekki eitthvað sem ég gerði, annað hvort viljiði fá mig eða ekki. Af hverju er ég hérna?“
,,Þannig var ég, þetta var enginn leikþáttur af minni hálfu, svona var ég. Ég ítrekaði að það væri ekki í boði að fara á reynslu, það var það aldrei. Ég fór að lokum aldrei til Arsenal.“