Mike Keegan blaðamaður Daily Mail segir að söluferlið á Manchester United sé enn í fullum gangi og viðræður haldi áfram.
Keegan sérhæfir sig í málum Manchester United en tæpt ár er frá því að Glazer fjölskyldan greindi frá því að félagið væri hugsanlega til sölu.
Sheik Jassim frá Katar og Sir Jim Ratcliffe eru að berjast um að eignast félagið en lítið hefur heyrst undanfarna mánuði.
„Það er að verða komið ár frá því að ferlið hófst en við erum ekki komin með niðurstöðu,“ segir Keegan.
„Ég ræddi í morgun við nokkra aðila sem tengjast þessu máli frá öllum hliðum og það er allt áfram í fullum gangi. Einn heimildarmaður segir að Glazer fjölskyldan sé mjög þolinmóð en sumir myndu kalla þau þver.“
Glazer fjölskyldan er afar umdeild á meðal stuðningsmanna Manchester United en flestir vilja sjá hana selja félagið sem fyrst.