Rio Ferdinand, goðsögn Manchester United, hefur varað stuðningsmenn liðsins við því að það muni taka tíma fyrir Sofyan Amrabat að aðlagast í ensku úrvalsdeildinni.
Amrabat var fenginn til Man Utd á lokadegi félagaskiptagluggans á dögunum og kemur upphaflega til félagsins á láni frá Fiorentina.
Það eru mörg dæmi um leikmenn sem hafa ekki staðist væntingar með enga reynslu á Englandi og er Ferdinand áhyggjufullur þegar kemur að miðjumanninum.
Amrabat hefur aldrei reynt fyrir sér á Englandi og þekkir lítið til landsins en hann er þó landsliðsmaður Marokkó og var frábær á HM í Katar í fyrra.
,,Allir leikmenn sem koma í úrvalsdeildina þurfa að aðlagast deildinni, ef hann getur gert það fljótt þá er hann í góðum málum,“ sagði Ferdinand.
,,Leikurinn hérna er hraðari en á Ítalíu, klárlega. Hann er landsliðsmaður í fótbolta og hefur spilað á því stigi svo vonandi er hann með vitið og einbeitinguna í að gera þetta rétt.“