Manchester City óttast að Kevin De Bruyne verði lengi frá vegna meiðsla sinna. Þetta herma belgískir miðlar.
De Bruyne fór af velli vegna meiðsla afan í læri í sigri City á Burnley í fyrsta leik tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni. Þetta eru sömu meiðsli og neyddu hann til að fara af velli í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í lok síðustu leiktíðar.
Belgískir miðlar segja nú að De Bruyne gæti þurft að fara í aðgerð og myndi hann þá ekki snúa aftur á völlinn fyrr en í upphafi næsta árs.
Þetta yrði áfall fyrir City en De Bruyne er auðvitað lykilmaður liðsins.
Uppfært 14:24 Pep Guardiola, stjóri City, hefur tjáð sig um málið. „Meiðsli De Bruyne eru alvarleg. Hann verður frá í einhverja mánuði. Við munum taka ákvörðun með aðgerð á næstu dögum en það er víst að við verðum án Kevin í einhvern tíma.“