Boltinn byrjar að rúlla í dag í Lengjudeild karla með fjórum leikjum. Í ár verða allir leikir í deildinni sýndir í opinni dagskrá. 433.is mun sýna einn leik í hverri umferð og aðra leiki má nálgast á Youtube síðu Lengjudeildarinnar
Eins og áður hefur komið fram hefur Íslenskur Toppfótbolti samið við tæknifyrirtækið OZ um framleiðslu á leikjum í Lengjudeild karla. Kerfið mun þó taka einhverjar vikur í uppsetningu og mun verða tekið í notkun í skrefum í upphafi tímabilsins. Gert er ráð fyrir að kerfið verði að fullu uppsett í næsta mánuði en á meðan verða leikir teknir upp með hefðbundnum hætti í bland við tækni OZ á meðan búnaður er að berast til landsins. Áhorfendur munu því geta fylgst með þróun deildarinnar í bættum útsendingargæðum þegar líða tekur á tímabilið. Hér er um mjög spennandi verkefni að ræða og höfum við trú á að þessi tækni og aðferð muni efla áhugann og auka gæðin á framleiðslu á Lengjudeild karla.
Lengjudeildarmörkin, markaþáttur sem hefur verið framleiddur af Sjónvarpstöðinni Hringbraut hefur nú færst yfir á vefsvæði 433.is og verður leikjum þar áfram gerð góð skil eins og undanfarin tvö ár.