Einar Kárason, rithöfundur og Framari, var gestur Íþróttavikunnar með Benna Bó á föstudaginn ásamt Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs. Þar var farið yfir víðan völl í heimi íþróttanna.
Einar hefur lifað tímana tvenna, hápunktana sem og lágpunktana sem stuðningsmaður knattspyrnuliðs Fram.
,,Við gengum í gegnum mikið niðurlægingar tímabil,“ sagði Einar í Íþróttavikunni er hann rifjaði upp sögu Fram. ,,Ég ólst upp við það að Fram væri topp klúbburinn, ég meina níundi áratugurinn og svona, við vorum alltaf með besta liðið í bikarnum á hverju ári.“
Svo fór að halla undan fæti.
,,Og það komu nokkur ár sem voru bara algjör niðurlæging. Maður var að fara niður á Laugardalsvöll á leiki, Fram komið niður í neðri deildir og það var engin stemning á leikjunum, “sextíu“ metrar frá hliðarlínunni að stúkunni.“
Á þessu niðurlægingar tímabili hafi í mesta lagi 60 manns mætt á leiki.
,,Það var engin stemning en svo hafa síðustu ár verið eldflaugarferð upp á við. Sumarið í fyrra í fyrsta skipti í efstu deild um langa hríð, það var æðislegt.
Svo erum við komin með þetta flotta svæði og nýjan leikvang uppfrá í Úlfarsárdalnum og rosaleg stemning og gleði í kringum félagið.“
Fram átti sæti í efstu deild karla á Íslandsmótinu í fyrra, í fyrsta skipti í langan tíma og endaði um miðja deild þrátt fyrir harkspár sparkspekinga.
,,Liðið var rosalega skemmtileg í fyrra, skoraði mikið. Það var alveg herfilegt að lesa spárnar fyrir tímabilið, einhver fjölmiðill sagði að það væri ekki hægt að gera kjúklingasalat úr kjúklingaskít.
Ég náttúrulega móðgaðist og ætlaði ekki að lesa viðkomandi fjölmiðil aftur en það gekk mjög vel hjá Fram. Ætli okkur sé ekki spáð 8.sæti fyrir komandi tímabil, ég hugsa að við lendum í 3. eða 4. sæti.“
Nánari umræðu um Fram má sjá hér fyrir neðan: