Gabby Agbonlahor er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum í starfi sparkspekingsins og kemur hann oft með athyglisverð ummæli.
Þessi fyrrum framherji Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni sagði á dögunum að hann vildi sjá Pep Guardiola prófa að stilla upp byrjunarliði Manchester City án Erling Braut Haaland í nokkrum leikjum.
Haaland hefur farið á kostum frá komu sinni til City og skorað 25 mörk í 19 leikjum. Liðið hefur þó breytt spilamennsku sinni frá komu hans. Á síðasta tímabili spilaði liðið til dæmis yfirleitt án hreinræktaðs framherja.
„Ég vil sjá City spila án Haaland í nokkrum leikjum og spila kerfið sem þeir spiluðu í fyrra,“ segir Agbonlahor.
„Ég vil sjá Foden sem falska níu. Ég vil sjá Grealish úti vinstra megin og Mahrez hægra megin. Ég vil sjá Gundogan, De Bruyne og Rodri á miðjunni.
Svo er hægt að sjá hvort liðið sé betra án Haaland. Ég hef séð Haaland í nokkrum leikjum undanfarið og hann bíður eftir að De Bruyne komi með David Beckham-seningar inn á teiginn. Hann kemur ekki neðar á völlinn eða tekur varnarmann á.“
Agbonlahor vill sjá mörk úr fleiri áttum hjá Englandsmeisturunum.
„Manchester City hefur vanist því að spila þannig að allir geta farið inn á teig. Gundogan hefur skorað helling af mörkum þar sem hann kom inn á teiginn.“