Jurgen Klopp var sár og svekktur eftir tap Liverpool gegn Brighton í 32-liða úrslitum enska bikarsins í gær.
Liverpool komst yfir eftir hálftíma leik í gær með marki Harvey Elliot. Lewis Dunk jafnaði fyrir heimamenn tæpum tíu mínútum síðar.
Það var svo ekki fyrr en í uppbótartíma sem Kaoru Mitoma gerði sigurmark leiksins fyrir Brighton.
Það vakti athygli og furðu margra eftir leik að Klopp hafi ekki farið í sjónvarpsviðtöl.
Leikurinn var sýndur á ITV og náðist aðeins viðtal við Andy Robertson áður en útsendingu var slitið.
Þess í stað hófst kvikmyndin Nanny McPhee aðeins um korteri eftir að leik Brighton og Liverpool lauk. Klopp slapp því við viðtöl í beinni eftir svekkjandi tap.