Spænska stórveldið Real Madrid ætlar ekki að láta frekar til sín taka á félagaskiptamarkaðnum í janúar.
Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri liðsins, staðfestir þetta við fjölmiðla.
Í þessum mánuði hefur Real Madrid tryggt sér þjónustu hins sextán ára gamla Endrick frá Palmeiras. Hann þykir mikið efni en kemur hins vegar ekki til spænsku höfuðborgarinnar fyrr en hann verður átján ára, eftir um eitt og hálft ár.
„Fyrir okkur er félagaskiptamarkaðurinn þegar lokaður. Það mun enginn fara og enginn koma. Ekkert meira gerist í janúar,“ segir Ancelotti.
Félagaskiptaglugganum í Evrópu verður formlega skellt í lás klukkan 23 annað kvöld að íslenskum tíma.