Forráðamenn sádi-arabíska félagsins Al-Nassr eru sannfærðir um að portúgalska knattspyrnugoðsögnin Cristiano Ronaldo muni enda knattspyrnuferil sinn hjá félaginu. Fyrir þessu segist ESPN hafa heimildir en Ronaldo gekk til liðs við Al-Nassr fyrir nokkrum vikum síðan.
Ronaldo gerði tveggja og hálfs árs samning við Al-Nassr sem færir honum um 162 milljónir punda á ársgrundvelli, það jafngildir tæpum 29 milljörðum íslenskra króna.
Hann verður því 40 ára gamall þegar núverandi samningur hans rennur út.
Auk þessa fregna hefur ESPN heimildir fyrir því að forráðamenn Al-Nassr vilji notfæra sér reynslu Ronaldo frá atvinnumannaferli hans og hjálpa þeim að bæta sig utan vallar. Heimildarmenn ESPN greina frá því að Ronaldo hafi mætt til Al-Nassr með lista yfir góðar starfsvenjur í knattspyrnuheiminum og munu forráðamenn félagsins nú vera vinna í því að innleiða þær.
Al-Nassr ætlar sér að verða yfirburðar knattspyrnufélag í Sádi-Arabíu og Asíu, því vill félagið nýta sér alla þá þekkingu sem Ronaldo býr yfir frá ferli sínum með knattspyrnufélögum á borð við Manchester United, Real Madrid og Juventus.