Ronaldo hefur ekki samið við Al-Nassr í Sádi-Arabíu um að gerast leikmaður félagsins.
Þetta kemur fram í frétt Sky Sports í kjölfar þess að Marca hélt því fram að Ronaldo hafi samið við Al-Nassr.
Fréttir af skiptum hins 37 ára gamla Ronaldo til Al-Nassr hafar verið háværar undanfarið. Sky Sports segir að þó svo að leikmaðurinn hafi ekki skrifað undir, líkt og Marca hélt fram, hafi sádi-arabíska félagið boðið honum besta samninginn hingað til.
Marca segir að Ronaldo muni þéna 200 milljónir evra á ári hjá Al-Nassr.
Ronaldo er án félags sem stendur. Samningi hans við Manchester United var rift á dögunum. Var það gert í kjölfar þess að Ronaldo fór í umdeilt viðtal við Piers Morgan þar sem hann hraunaði yfir allt og alla á Old Trafford.
Sem stendur undirbýr Ronaldo sig fyrir leik á 16-liða úrslitum HM gegn Sviss annað kvöld.