Lionel Messi fékk afar umdeilda vítaspyrnu er Argentína og Pólland áttust við á Heimsmeistaramótinu í Katar í gær.
Argentíska liðið vann sannfærandi 2-0 sigur. Bæði lið eru þó komin í 16-liða úrslit.
Messi klikkaði hins vegar á víti í leiknum. Hann fékk spyrnuna eftir viðskipti við markvörð Pólverja, Wojciech Szczesny.
Szczesny varði hins vegar frábærlega frá Messi.
Þessi markvörður Juventus á Ítalíu sagði frá því eftir leik að hann hafi veðjað við Messi áður en vítaspyrnan var dæmd með hjálp myndbandsdómgæslu.
Hann veðjaði hundrað evrum á að Messi fengi ekki vítið, en tapaði svo.
„Ég ætla ekki að borga honum. Ég held að honum sé sama um hundrað evrur,“ sagði Szczesny afar léttur í bragði eftir leik.
Pólland á erfitt verkefni fyrir höndum í 16-liða úrslitum. Þar verður Frakkland andstæðingurinn á sunnudag.
Argentína mætir aftur á móti Ástralíu á laugardagskvöld.