Gana vann rétt í þessu sterkan 3-2 sigur á Suður-Kóreu í spennuþrungnum leik í H-riðli á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem fer fram í Katar þessa dagana.
Það var hart barist í leik dagsins og það voru Ganverjar sem komust yfir í leiknum með marki Mohammed Salisu strax á 24. mínútu.
Tíu mínútum síðar tvöfaldaði Mohammed Kudus forystu Ganverja og fóru þeir því inn til búningsherbergja með tveggja marka forystu í hálfleik.
Leikmenn Suður-Kóreu voru hins vegar ekki á þeim buxunum að gefast upp og tvö mörk með skömmu millibili á 58. og 61. mínútu frá Gue-sung Cho sáu til þess að leikar stóðu jafnir.
Endurkoma Suður-Kóreu beið hins vegar skell þegar að Mohammed Kudus bætti við sínu öðru marki í leiknum á 68. mínútu og reyndist það lokamark leiksins.
Leikmenn Suður-Kóreu reyndu hvað þeir gátu að jafna metin að nýju en tókst það hins vegar ekki .
Eftir leik sauð upp úr og fékk Paulo Bento, þjálfari Suður-Kóreu, rautt spjald.