Argentíska fjölmiðlakonan Veronica Brunati sagði í gær frá því að Lionel Messi myndi snúa aftur til Barcelona næsta sumar. Fabrizio Romano, sem er afar vel með á nótunum í félagaskiptamálum knattspyrnumanna, segir hins vegar ekkert klárt í þeim efnum.
Messi fór frítt til Paris Saint-Germain fyrir rúmu ári síðan frá Barcelona. Hann grét vegna þess að hann vildi ekki fara frá Katalóníu.
Barcelona var hins vegar að glíma við fjárhagsvandræði og fékk ekki leyfi frá La Liga til að endursemja við Messi.
Í gær sagði Brunati svo að leikmaðurinn væri að snúa aftur. Romano segir að Börsungar hafi áhuga á að fá leikmanninn. PSG hafi hins vegar einnig áhuga á að endursemja við hann.
Framtíð Messi er því enn í mikilli óvissu. Hann mun að sögn Romano ekki taka neina ákvörðun fyrr en eftir HM í Katar síðar á þessu ári.