Manchester United er sagt nálægt því að ganga frá kaupum á Jurrien Timber frá Ajax. Hollenski varnarmaðurinn hefur tjáð sig um málið.
Fjallað hefur verið um að Erik ten Hag nýr stjóri liðsins vilji ólmur fá þennan tvítuga varnarmann til United.
Timber er bæði hægri bakvörður og miðvörður en Ten Hag er að hefja störf hjá United og þarf að laga og hreinsa til í leikmannahópi félagsins.
„Að sjálfsögðu get ég bætt mig áfram hjá Ajax, ég er 100 prósent á því. Ég er ekki á endastöð hjá félaginu en ég get líka bætt mig hjá öðru félagi,“ sagði Timber sem er tvítugur.
„Hugur minn mun ráða för í þessari ákvörðun, þetta þarf allt að smella. Það er hægt að fara í stórt félag en ég vil spila.“
„Ajax er betra fyrir mig en að fara og vera kannski varamaður, Ajax er líka stórt félag í Meistaradeildinni.“