Það var hart tekist á í Íslendingaslag í efstu deild kvenna í Svíþjóð í kvöld. Guðrún Arnardóttir og félagar í Rosengård fengu Hlín Eiríksdóttur og stöllur í Piteå í heimsókn.
Rosengård gat farið eitt á toppinn í deildinni með sigri í kvöld og það tókst í uppbótartíma. Markalaust var í hálfleik en Loreta Kullashi kom heimakonum í forystu á 62. mínútu.
Hlín jafnaði metin fyrir Piteå með marki á 80. mínútu en varamaðurinn Stefanie Sanders tryggði Rosengård sigurinn á annarri mínútu uppbótartíma, lokatölur 2-1 sigur Rosengård.
Guðrún lék að vanda allan leikinn í vörninni fyrir Rosengård og nældi sér í gult spjald á 80. mínútu. Hlín lék allan leikinn á hægri vængnum hjá Piteå. Rosengård er sem áður segir á toppi deildarinnar með 27 stig þegar 11 umferðir eru loknar. Piteå situr í 9. sæti með 14 stig.
Elísabet Gunnarsdóttir stýrði sínum konum í Kristianstad til sigurs gegn á Umeå á útivelli. Hinar ungu og efnilegu Amanda Andradóttir og Emelía Óskarsdóttir byrjuðu báðar á bekknum hjá Kristianstad í 2-0 sigri en Amanda kom inn á þegar um sjö mínútur voru til leiksloka.
Kristianstad situr í 5. sæti með 21 stig.