Keflavík tók á móti ÍBV í Bestu deild karla í dag og úr varð fjörugur leikur.
Joey Gibbs kom heimamönnum yfir eftir rúmar 20 mínútur. Hann setti boltann í netið eftir fyrirgjöf Nacho Heras.
Eftir hálftíma leik tvöfaldaði Rúnar Þór Sigurgeirsson forystu Keflvíkinga eftir undirbúning Adams Ægis Pálssonar.
Fimm mínútum síðar varð ákveðinn vendipunktur í leiknum þegar Magnús Þór Magnússon, fyrirliði Keflavíkur, fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Staðan í hálfleik var 2-0 fyrir tíu leikmenn Keflavíkur.
Snemma í seinni hálfleik slapp Andri Rúnar Bjarnason inn fyrir vörn heimamanna og minnkaði muninn fyrir Eyjamenn. Á 64. mínútu jafnaði ÍBV svo leikinn með laglegu marki frá Telmo Castanheira.
Gestirnir voru svo búnir að snúa leiknum við á 82. mínútu leiksins þegar Sigurður Arnar Magnússon kom boltanum í netið eftir hornspyrnu.
Það stefndi í frábæran endurkomusigur ÍBV en Adam Árni Róbertsson bjargaði stigi fyrir Keflavík í uppbótartíma. Lokatölur 3-3.
ÍBV er í níunda sæti með tvö stig eftir fjóra leiki. Keflavík er á botninum eftir fimm leiki. Þetta var þeirra fyrsta stig.