Chelsea og Liverpool mættust í úrslitaleik enska deildabikarsins í dag. Fyrri hálfleikur var afar fjörugur. Christian Pulisic fékk dauðafæri til að koma Chelsea yfir á 6. mínútu en skot hans fór beint á Kelleher í marki Liverpool. Ágætist færi voru á báða bóga eftir þetta en næsta dauðafæri leiksins kom á 30. mínútu þegar Edouard Mendy varði frábærlega frá Sadio Mane. Loks fékk Mason Mount dauðafæri keimlíkt því sem Pulisic fékk snemma leik en skaut framhjá .
Chelsea óð í færum fyrri hluta seinni hálfleiks en tókst á einhvern ótrúlegan hátt ekki að koma boltanum í netið. Joel Matip kom boltanum hins vegar í mark Chelsea á 67. mínútu. Leikmenn Liverpool fögnuðu lengi vel áður en markið var dæmt af með aðstoð myndbandsdómgæslu. Virgil van Dijk var rangstæður í aðdraganda marksins og var hann talinn hafa áhrif á leikinn. Bæði lið voru nálægt því að skora í uppbótartíma en voru markmenn liðanna báðir vel á tánum. Ótrúlegt en satt var markalaust eftir venjulegan leiktíma og gripið til framlengingar.
Í framlengingunni kom Chelsea boltanum tvisvar í mark Liverpool en bæði mörkin voru dæmd af vegna rangstöðu. Enn var markalaust eftir framlengingu í þessum magnaða leik og því farið í vítaspyrnukeppni. Fyrir vítaspyrnukeppnina skipti Thomas Tuchel Kepa Arrizabalaga inn í mark Chelsea fyrir Mendy. Kepa skaut yfir úr elleftu spyrnu Chelsea í vítaspyrnukeppninni. Hann var sá eini sem klúðraði og er Liverpool því meistari.
Eftir leik tók Liverpool svo á móti sjálfum bikarnum. Þar leyfði Allison, markvörður liðsins, ungum stuðningsmanni að vera með í fagnaðarlátunum og lyfta bikarnum. Þetta fallega atvik má sjá hér fyrir neðan.
Alisson Becker invited a young Liverpool fan to lift the trophy with the team 🏆👏 pic.twitter.com/L6SiE13Oxs
— Football Daily (@footballdaily) February 27, 2022