Ekki er útilokað að evrópsk Ofurdeild muni sjá dagsins ljós þrátt fyrir hörð viðbrögð við hugmynd að stofnun hennar í vor. Verði hún sett á laggirnar mun hún þó líta allt öðruvísi út en sú hugmynd sem sett var fram í apríl.
Tólf stórlið í Evrópu ætluðu sér í vor að stofna lokaða Ofurdeild Evrópu. Hugmyndin varð þó að engu stuttu eftir að hún kom upp á yfirborðið vegna viðbragða stuðningsmanna, leikmanna og hjá fólki í kringum fótboltann almennt.
Einu félögin sem ekki hafa slitið sig frá Ofurdeildinni eru Barcelona, Real Madrid og Juventus. Hjá þessum félögum bera menn enn þá von í brjósti um að hægt verði að koma Ofurdeildinni á laggirnar.
Samkvæmt The Athletic yrði keppnin þó allt öðruvísi en félögin tólf sáu hana fyrir sér í vor.
Svo gæti farið að sett yrði upp deildarkerfi í kringum Ofurdeildina. Þannig yrðu 20 lið í efstu deild, tvær 20 liða deildir þar fyrir neðan og svo fjórar 20 liða deildir á þriðja þrepi. Þá yrðu alls 140 lið í Ofurdeildinni.
Sterkustu rökin sem gefin hafa verið fyrir þessari nýju hugmynd eru þau að minni lið í Evrópu fengju mun fleiri leiki gegn svipað góðum liðum í álfunni heldur en Meistaradeild Evrópu í núverandi mynd býður upp á.
Það verður þó ekkert af þessum plönum ef UEFA tekst að banna Barcelona, Real Madrid og Juventus að stofna þessa nýju keppni í dómssal. Þar verður málið tekið fyrir á næsta ári.