Færeyingar komust nálægt því að ná í jafntefli gegn Dönum þegar liðin mættust í Þórshöfn í undankeppni HM í kvöld. Leiknum lauk með 1-0 sigri Dana sem hafa nú unnið alla fimm leiki sína í F riðli og sitja á toppnum með 15 stig. Jonas Wind skoraði eina mark leiksins á 85. mínútu. Færeyingar eru á botninum ásamt Moldóvu með 1 stig.
Ísrael er í 2. sæti með 10 stig í F riðli en liðið vann 5-2 sigur á Austurríki í kvöld. Skotar unnu nauman sigur á Moldóvu og eru enn í baráttunni um sæti á HM 2022. Lyndon Dykes skoraði eina mark leiksins á 14. mínútu og Skotar í 3. sæti með 8 stig.
Úkraína og Frakkland gerðu 1-1 jafntefli í öðrum leik liðanna í D riðli, en fyrri leiknum lauk einnig með 1-1 jafntefli.
Mykola Shaparenko kom heimamönnum yfir með frábæru skoti undir lok fyrri hálfleiks, en Anthony Martial, leikmaður Man United, jafnaði fyrir Frakka á 50. mínútu og þar við sat. Frakkland er efst í D riðli með 9 stig eftir 5 leiki. Úkraína er í 3. sæti með 5 stig en liðið hefur gert fimm jafntefli í jafn mörgum leikjum.
Holland vann 4-0 sigur gegn Montenegro á heimavelli. Memphis Depay skoraði tvö mörk Hollendinga í leiknum, en þeir Giorginio Wijnaldum og Cody Gakpo skoruðu hin.
Fyrr í dag vann Noregur 2-0 sigur á Lettlandi þar sem Erling Haaland skoraði eitt markanna úr vítaspyrnu. Norðmenn eru í 3. sæti með 10 stig í G riðli, sama stigafjölda og Holland í 2. sæti og einu stigi á eftir toppliði Tyrklands sem vann 3-0 sigur á Gibraltar í kvöld.