Fjórir leikir fóru fram í Lengjudeild kvenna í dag. Topplið KR og Afturelding unnu sigra á meðan að Víkingur R. sótti þrjú stig í Kaplakrika og Augnablik vann Gróttu í botnbaráttuslag.
Topplið KR tók á móti Haukum í Vesturbænum. Þær Ísabella Sara Tryggvadóttir og Bergdís Fanney Einarsdóttir skoruðu mörk KR-inga á tveggja mínútna kafla og tryggðu þar með liðinu sæti í efstu deild á næsta tímabili.
Afturelding hélt í við KR með 3-0 sigri á ÍA á Skaganum. Þær Ragna Guðrún Guðmundsdóttir, Jade Gentile og Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir skoruðu mörkin en Afturelding er í 2. sæti með 37 stig, stigi á undan FH í 3. sæti en liðin mætast í sannkölluðum úrslitaleik í síðustu umferð Lengjudeildarinnar.
Víkingar unnu 4-2 sigur á FH í Kaplakrika. Brittney Lawrence kom FH Í forystu eftir tæpan 10. mínútna leik en Nadía Atladóttir skoraði þrennu fyrir Víkinga og Hulda Ösp Ágústsdóttir skoraði eitt áður en Elísa Lana Sigurjónsdóttir klóraði í bakkann fyrir FH þegar að sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Slæmt tap fyrir FH en liði getur komist upp um deild með sigri á Aftureldingu í næstu viku. Víkingar eru í 4. sæti með 28 stig.
Þá vann Augnablik 2-1 sigur á Gróttu í botnslagnum. Lovísa Scheving kom Gróttu í forystu á 15. mínútu en Díana Ásta Guðmundsdóttir jafnaði fyrir Augnablik tíu mínútum síðar. Viktoría París skoraði sigurmarkið eftir tæpan klukkutíma leik og Augnablik er í 9. sæti með 14 stig, tveimur stigum á eftir Gróttu í síðasta örugga sætinu.