West Ham tók á móti Chelsea í Meistaradeildarslag í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þetta eru liðin í fjórða og fimmta sæti. Fyrir leik voru þau jöfn að stigum.
Chelsea var aðeins sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Þeir komust yfir á 43.mínútu þegar lág fyrirgjöf Ben Chilwell rataði á Timo Werner sem skoraði. Chelsea leiddi 0-1 í hálfleik.
Það var aðeins bjartara yfir West Ham í upphafi síðari hálfleiks. Þrátt fyrir það var Chelsea hársbreidd frá því að tvöfalda forystu sína þegar Mason Mount átti skot sem Lukasz Fabianski varði í marki West Ham. Þaðan barst boltinn til Werner sem tókst einhvern veginn að setja boltann framhjá.
West ham átti fínan kafla um miðbik seinni hálfleiks en það var Chelsea sem skapaði góðu færin.
Þegar tíu mínútur lifðu leiks fékk Fabian Balbuena, leikmaður West Ham, rautt spjald. Hann fór þá með takkana á undan sér í tæklingur á Chilwell. Upprunalega átti Balbuena að sleppa en VAR greip inn í.
Tíu leikmönnum West Ham tókst ekki að jafna og virkilega mikilvægur sigur Chelsea því staðreynd.
Chelsea er í fjórða sæti, með 3 stiga forskot á West Ham, sem er í því fimmta. Bæði lið eiga eftir að leika fimm leiki.