Liverpool tók á móti Newcastle í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Það leit allt út fyrir sigur Liverpool þar til gestirnir jöfnuði í uppbótartíma.
Mark Liverpool kom strax eftir 3 mínútna leik. Boltinn féll þá fyrir Salah á fjærstönginni eftir að fyrirgjöf Sadio Mane hafði farið af varnarmanni Newcastle.
Liverpool hefði getað aukið forystu sína í fyrri hálfleik. Salah, Mane og Diogo Jota fengu allir góð tækifæri til þess en allt kom fyrir ekki. Shaun Longstaff fékk besta færi Newcastle í fyrri hálfleik þegar Allison varði frá honum úr dauðafæri.
Gestirnir komu sterkari inn í byrjun seinni hálfleiks, Joelinton fékk tvö góð færi. Liverpool fékk þá einnig sína sénsa til að gera út um leikinn.
Á þriðju mínútu uppbótartíma héldu gestirnir að þeir væru að jafna. Það kom hins vegar á daginn að Callum Wilson hafði fengið boltann í höndina í aðdraganda marksins. Dómararnir notuðust við VAR.
Stuttu síðar komu Newcastle-menn boltanum þó aftur í netið og í þetta sinn fékk markið að standa. Joseph Willock, sem hefur verið frábær fyrir Newcastle síðan hann kom á láni frá Arsenal, skoraði jöfnunarmarkið. Dwight Gayle skallaði boltann þá fyrir markið á Willock sem dúndraði boltanum í netið. Ótrúleg dramatík.
Liverpool var heilt yfir betri aðilinn í leiknum en stigunum er skipt á milli liðanna.
Þessi úrslit gætu orðið dýrkeypt fyrir Liverpool í baráttu um Meistaradeildarsæti. Þeir eru nú í sjötta sæti, stigi á eftir Chelsea sem er í því fjórða. Chelsea á eftir að leika einum leik meira.
Newcastle er komið í góð mál, eru í 15.sæti með 9 stiga forskot á Fulham sem er í fallsæti.