Fimm leikir kláruðust í þýsku Bundesligunni nú rétt í þessu. Bayern mistókst að gulltryggja sér meistaratitilinn, Dortmund heldur í vonina um að ná Meistaradeildarsæti og Union Berlin getur enn komist í Evrópu.
Bayern tapaði óvænt gegn Mainz í dag. Jonathan Burkardt kom heimamönnum í Mainz yfir á 3.mínútu leiksins. Robin Quaison bætti svo í forystu þeirra með marki á 37.mínútu. Robert Lewandowski er mættur aftur eftir meiðsli og hann klóraði í bakkann fyrir gestina í uppbótartíma. Það var þó of seint, lokatölur 2-1 fyrir Mainz.
Bayern er enn langsefst, með 10 stiga forskot á Leipzig, sem er í öðru sæti. Leipzig á leik til góða. Mainz kom sér aðeins frá fallpakkanum með sigrinum.
Dortmund vann þá gríðarlega mikilvægan sigur á Wolfsburg, 0-2. Erling Braut Haaland skoraði bæði mörk Dortmund í leiknum. Jude Bellingham sá rautt þegar hálftími lifði leiks.
Dortmund er í fimmta sæti, nú aðeins tveimur stigum á eftir Wolfsburg í því þriðja. Frankfurt er í fjórða sæti, stigi á undan Dortmund og stigi á eftir Wolfsburg. Spennandii Meistaradeildarbarátta framundan.
Union Berlin vann góðan sigur á Werder Bremen, 3-1. Joel Pohjanpalo gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu. Theodor Selassie minnkaði muninn fyrir Werder seint í leiknum.
Union er aðeins stigi frá Evrópusæti eftir leikinn. Leverkusen á þó leik inni, þeir eru í síðasta Evrópusætinu. Werder er í vandræðum, aðeins stigi fyrir ofan fallsvæðið.
Freiburg og Hoffenheim gerðu loks 1-1 jafntefli í þýðingarlitlum leik. Bæði lið sigla nokkuð lignan sjó. Andre Kramaric kom Hoffenheim yfir en Vincenzo Grifo jafnaði fyrir Freiburg úr víti.