Íslenska landsliðið komið saman í Þýskalandi fyrir fyrstu leikina í undankeppni HM 2022. Íslenska liðið varð fyrir gríðarlegri blóðtöku í fyrradag þegar Gylfi Þór Sigurðsson afboðaði komu sína í landsleikina þrjá sem fram undan eru. Ástæðan er sú að eiginkona Gylfa á von á þeirra fyrsta barni á allra næstu dögum.
Blóðtakan fyrir Ísland er gríðarleg enda Gylfi verið yfirburðar besti leikmaður liðsins í mörg ár. Víðir Sigurðsson blaðamaður á Morgunblaðinu bendir á magnaða staðreynd um Gylfa og hans mikilvægi í íslenska landsliðinu.
Þar kemur meðal annars fram að Gylfi Þór hafi misst af einum leik af síðustu 52 í undankeppni EM eða HM. Um er að ræða leiki frá árinu 2021 þegar bestu ár Íslands í fótbolta voru að hefjast.
Að auki hefur Gylfi misst af fimm leikjum í Þjóðadeildinni síðustu rúmu tvö ár. Árangur Íslands á Gylfa er vægast sagt slakur en í heildina hefur Gylfi misst af sex leikjum.
„Hvernig hafa þessir sex leikir endað sem Gylfi hefur misst af? Jú, reyndar, þeir hafa allir tapast. Þetta eru tölur á blaði, staðreyndir, sem vert er að taka alvarlega,“ skrifar Víðir í Morgunblaðið.
Ísland mætir Þýskalandi á fimmtudag, Armeníu á sunnudag og Liechtenstein. „Um árabil hafa íslenskir fótboltaáhugamenn rifist um hvort Ásgeir Sigurvinsson eða Eiður Smári Guðjohnsen sé besti íslenski fótboltamaðurinn í sögunni.
„Gylfi er kannski farinn að banka á þær dyr en það er eflaust hægt að fullyrða með sterkum rökum að hann sé besti eða mikilvægasti leikmaðurinn í sögu íslenska landsliðsins,“ skrifar Víðir í Morgunblaðið.