„Ég var búin að hugsa það upp á síðkastið hvenær væri rétti tíminn til að koma heim. Eftir að deildin var blásin af í Hollandi fór ég að horfa heim og núna var ég í fyrsta skiptið spennt fyrir því að koma heim að spila“ segir Anna Björk Kristjánsdóttir leikmaður Selfoss í Pepsí max deildinni sem kom til félagsins frá PSV.
Anna var í viðræðum við tvö til þrjú önnur lið en sagði Selfoss heilla mest. „Þegar ég talaði við Alla [Alfreð Elías Jóhannsson þjálfara Selfoss] leist mér strax mjög vel á þetta. Það er mikill metnaður í liðinu og þau voru mjög skýr og ákveðin í öllum samskiptum. Liðið og leikmennirnir eru líka spennandi.“
Selfoss lenti í þriðja sæti í deildinni á síðustu leiktíð og varð auk þess bikarmeistari. „Þær stóðu sig vel í fyrra. Ég fylgdist vel með deildinni og horfði á bikarúrslitin og liðið var mjög heillandi. Selfoss er með unga og efnilega leikmenn og reynslumikla leikmenn inn á milli. Alfreð hljómar líka mjög heilsteyptur. Þau hjálpuðu mér líka að finna vinnu í sumar. Ég er að læra sjúkraþjálfun og fékk vinnu við það á Selfossi. Það var ýmislegt sem gerði það að verkum að það heillaði mig að semja við Selfoss“ segir Anna Björk.
Selfoss endaði í þriðja sæti í fyrrasumar og varð bikarmeistari. Anna segir þær finna fyrir pressu að gera betur en í fyrra. „Pressan kemur fyrst og fremst frá liðinu sjálfu og fólkinu í kring um liðið. Það er mikill hugur í okkur og það er líka pressa utan frá. Við erum með sterkan hóp og við ætlum okkur klárlega að gera betur en í fyrra. Stefnan er að vinna titil og vonandi gengur það upp“.
Umræða myndaðist um laun Önnu Bjarkar hjá Selfossi í hlaðvarpsþættinum Dr. Football. Talað var um að launin hennar væru of há fyrir leikmann í Pepsí Max deild kvenna. Hvorki Anna Björk né Alfreð vildu tjá sig um málið. Í samtalið við blaðamann sagði Alfreð: „Við reynum að gera eins vel og við getum fyrir karla og konur.“