Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur, fyrrverandi ráðherra og stofnandi Viðreisnar, er mættur til Moskvu til að fylgjast með landsliðinu etja kappi við Argentínumenn á morgun.
Stærðfræðingurinn er ekki mjög bjartsýnn á sigur Íslands þó hann segi nú að leikurinn leggist ágætlega í hann. Blaðamaður hitti Benedikt á förnum vegi á Rauða torginu í Moskvu þar sem fjölmargir Íslendingar hafa komið saman í dag.
Aðspurður hvort hann fylgist mikið með fótbolta, segir Benedikt: „Ég held ég sé svona í meðallagi. Þegar það er stórmót þá reynir maður að fylgjast með. Þetta er í fyrsta sinn sem maður fer á heimsmeistaramót og kannski það síðasta.“
Benedikt segir í viðtalinu hér að neðan að hann hafi hitt Argentínumenn fyrr í dag og vel ferið á með þeim. Benedikt segist hafa tjáð þeim að líklega yrði á brattann að sækja fyrir Ísland í leiknum en þeir á móti bent á að við hefðum unnið England á Evrópumótinu 2016 og værum með sterkt lið. „Ekki vorum við að neita því.“
En stærðfræðingurinn er ekki mjög bjartsýnn á sigur Íslands. „Eigum við ekki að segja 3-1 fyrir Argentínu þó það sé ekki mjög þjóðhollt að segja það,“ sagði Benedikt.
Það er þá bara að vona að þessi jafna gangi ekki upp.