Alexandre Lacazette, framherji Arsenal á Englandi, ætlar að reyna að komast burt frá félaginu fyrir lok félagaskiptagluggans í Evrópu.
Franskir miðlar greina frá þessu í kvöld en Lacazette hefur miklar áhyggjur af stöðu sinni hjá félaginu.
Unai Emery, stjóri Arsenal, hefur ekki byrjað með Lacazette í fremstu víglínu og kýs frekar að nota Pierre-Emerick Aubameyang einan upp á topp.
Samkvæmt fregnum er Lacazette áhyggjufullur og mun reyna að komast annað áður en glugginn lokar þann 31. ágúst.
Arsenal er þó ekki talið hafa áhuga á að leyfa Frakkanum að fara og mun gera allt til að koma í veg fyrir skipti.
Nokkur félög hafa sett sig í samband við Arsenal vegna leikmannsins sem gæti þó verið fáanlegur í janúar.