fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Séra Þórir viðurkenndi brot sín á fundi sem Agnes sat: „Þá höfum við líka það sem heitir í kirkjunni fyrirgefningin“

Kristinn H. Guðnason, Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Föstudaginn 24. ágúst 2018 07:30

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV pantaði viðtal við frú Agnesi Sigurðardóttur, biskup Íslands, til að ræða stöðu kirkjunnar á 21. öldinni. Fljótlega barst talið að máli séra Þóris Stephensen og þá stöðu sem upp er komin varðandi hann, það er að maður sem viðurkenndi barnaníð geti stýrt og tekið þátt í athöfnum kirkjunnar. Ekki leið á löngu þar til ritari biskups reyndi að stöðva viðtalið.

Í helgarblaði DV er hægt að lesa ítarlega umfjöllun um mál séra Þóris Stephensen, fyrrverandi dómkirkjuprests, og hvernig kirkjan tók á hans máli eftir að hann viðurkenndi, á fundi sem biskup sat, kynferðisbrot gegn barni um miðja síðustu öld.

 

Við lifum á öld tækni og vísinda þar sem stöðugt koma fram nýjar upplýsingar sem stangast á við það sem sagt er í Biblíunni. Er ekki erfitt að fá fólk til að trúa til dæmis á söguna um Adam og Evu þegar það hefur þessar upplýsingar?

„Ég lít ekki á það þannig. Sköpunarsagan í Biblíunni er ljóð og við þurfum ekki að taka orðin bókstaflega um að heimurinn hafi verið skapaður á sex dögum. En því sem er lýst þarna, guð sagði og það varð, hvað gerðist á hverjum degi sköpunarinnar, það er á pari við það sem gerðist í sköpun heimsins eins og vísindamenn hafa fært okkur sanninn um. Heimurinn verður til úr smáu og svo þróast hann. En siðferðilegar spurningar vakna á hverjum tíma miðað við nýja þekkingu, til dæmis varðandi erfðafræðirannsóknir, líknardauða, fóstureyðingar og fleira. Hjá okkur kristnu fólki þá er kærleiksboðskapur Krists alltaf ofan á. Líkt og við sjáum í Biblíunni þar sem Jesús er að fást við sína samtíð og koma fram með eitthvað nýtt. Eins og þetta litla atriði þar sem hann segir: Leyfið börnunum að koma til mín. Þetta var framandi fyrir fólk á þessum tíma.“

Talandi um börnin, nú hafa komið upp hneykslismál innan kirkjunnar víðs vegar um heim. Það virðist ekki skipta máli hvert landið er, Ástralía, Bandaríkin, Suður-Ameríka. Þetta er holskefla af kynferðisbrotum gagnvart börnum.

„Í mínum huga er þetta auðvitað hryllingur og gjörsamlega í andstöðu við þann boðskap sem við eigum að koma á framfæri. Við sjáum að hið illa, ef ég má orða það þannig, leynist alls staðar.“

Líka innan kirkjunnar?

„Líka þar sem hið góða á að vera alls ráðandi, því miður. Þetta sýnir okkur breyskleika manna og hvað við þurfum að vanda okkur um að vera á verði gagnvart öllu sem að skemmir og eyðir lífinu.“

Það eru ekki aðeins gerendurnir sem eru vandamálið heldur einnig þeir sem voru að reyna að fela þetta. Topparnir sem vissu.

„Algerlega. Sem betur fer hafa ekki komið upp mörg mál í okkar kirkju að ég veit. Við höfum tekist á við svona vandamál eftir bestu vitund og getu. Að koma þeim í ákveðinn farveg og alls ekki þagga þau niður. Rétt eins og þegar maður fer til tannlæknis með skemmda tönn. Það verður að bora í tönnina til að hægt sé að gera hana heila. Við þurfum að vera opin fyrir því að takast á við málin eins og þau eru og alls ekki fela þau því við getum ekki falið hið illa. Við verðum að uppræta það.“

Við erum einmitt að vinna í máli fyrrverandi prests innan þjóðkirkjunnar. Hér inni átti sér stað sáttafundur á milli hans og þolandans.

„Sáttafundur er reyndar ekki alveg rétt orðalag. Þetta var mál sem fagráðið var búið að vera með.“

Var fagráðið búið að taka það upp?

„Búið að hafa það í tvö ár.“

Var komin niðurstaða frá þeim?

„Já. Þegar svona mál koma upp fara þau til fagráðs. Sá sem kvartar, eða er þolandi, ræður málsmeðferðinni. Ef hann er tilbúinn að segja sögu sína þá gerir hann það. Ef hann er tilbúinn að gera eitthvað meira þá er viðkomandi hjálpað til þess. Það er alltaf þolandinn sem ræður málsmeðferðinni og hraðanum. Þetta mál byrjaði áður en ég kom hingað og ég vissi ekki af þessu fyrr en á síðustu stigum. Þá var það komið á þann stað að þolandinn vildi hitta gerandann og horfast í augu við hann og gerandinn samþykkti það. Ég skipti mér svo sem ekkert meira af því. Ég bara sat þarna eins og ég var beðin um. Ég reyni yfirleitt að verða við því sem ég er beðin um ef það er á mínu færi og tel það til bóta fyrir fólkið.“

Núna viðurkenndi hann brot sín þessi prestur?

„Já.“

Samt hélt hann áfram að sinna störfum fyrir kirkjuna?

„Já, hann var búinn að láta af þjónustu fyrir kirkjuna þegar þetta var.“

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Er þetta ekki svolítið furðulegt eftir að hann viðurkenndi að hafa brotið á henni þegar hún var tíu ára. Að hann haldi messu í Breiðholtskirkju og mæti í vígslu Skálholtsbiskups hjá þér?

„Ég veit ekki hvort það sé neitt óeðlilegt við það í sjálfu sér.“

En hann viðurkenndi barnaníð?

„Ég tel líka að gerandinn verði að bera ábyrgð á sjálfum sér, hvað honum finnist við hæfi og hvað ekki. Hann er búinn að viðurkenna þetta og þetta verður ekki tekið til baka frekar en annað úr fortíðinni. En þá höfum við líka það sem heitir í kirkjunni fyrirgefningin.“

Er fyrirgefningin það sterk að barnaníðingur geti verið að sjá um kirkjuathafnir og sé við vígslu presta? Sé við heiðurssæti og honum sé lyft upp á þennan stall í ljósi þess að hann er ekki einu sinni starfandi sem prestur hjá Þjóðkirkjunni?

„Hver sóknarprestur hefur sjálfdæmi um það hverja hann biður um að predika hjá sér. Ég vissi nú ekkert um það mál til dæmis. Þetta kemur ekkert inn á okkar borð.“

Áttuð þið engan þátt í því að leyfa honum að messa?

„Nei.“

„Ég tel líka að gerandinn verði að bera ábyrgð á sjálfum sér“

Eða að bjóða honum í Skálholtskirkju?

„Jú, það er annað með messuna. Þetta var á uppstigningardag, sem er dagur aldraðra í kirkjunni síðan árið 1986. Þá er það þannig að sóknarpresturinn biður einhvern um að predika og það er oft á þessum degi sem að eldri borgari er beðinn um að predika.“

En það er til fjöldi annarra, eldri presta til þess?

„Ég vissi ekkert um þetta mál fyrr en mér var bent á að þetta hefði verið í útvarpsmessu.“

En með Skálholt?

„Þá er öllum fyrrverandi prestum boðið.“

Öllum?

„Öllum er boðið að mæta að ég best veit.“

En það eru aðeins 25 sæti þarna í horninu?

„Nei, það voru 50 manns í Maríustúkunni, þjónandi prestar og emerítar.“

Finnst þér ekkert óeðlilegt við þetta? Að hann viðurkenni brot sín hérna á Biskupsstofu og prediki síðan í messu sem er útvarpað þannig að þolandinn þarf að hlusta á það. Síðan mætir hann í Skálholtskirkju til að taka í hendur á háttsettum embættismönnum, núverandi og fyrrverandi? Hann er sakaður um kynferðisbrot gegn tíu ára gamalli stelpu.

Ritari biskups bankar á þessari stundu í borðið og vill að viðtalinu ljúki.

„Hvað er óeðlilegt og hvað ekki, það sem málið snýst um er það að þessu máli er lokið hjá kirkjunni. Þau eru búin að hittast, meintur gerandi og þolandi, og þar með er málinu lokið.“

Er því lokið fyrir þolandann?

„Þetta er það sem þolandinn vildi, að halda þennan fund, og það var gert. Þar með er málinu lokið þannig lagað sé. En hvort að því sé lokið í hjarta manns verða allir að gera upp við sjálfan sig.“

Er þetta eðlilegt í ljósi þess að þessi fundur var haldinn hér inni á Biskupsstofu …?

Agnes hækkar róminn og segir: „Þetta er alveg eðlilegt vegna þess að það er fagráðið sem er með þetta. Þolandinn kvartar og þetta fer til fagráðs sem er sá farvegur í kirkjunni sem við höfum. Þolandinn biður um þetta og biður um hitt og það er orðið við því. Þolandinn stjórnar þessu alveg frá A til Ö. Hvað sé eðlilegt og hvað sé það ekki er alltaf spurning.“

Það er þessi siðferðislega spurning sem kemur upp, til dæmis í tengslum við #metoo-byltinguna og annað, að þegar afbrotamenn gera eitthvað af sér þá er ekki búist við því að þeir haldi stöðu sinni áfram?

„Emeríti heldur ekki stöðu sinni áfram.“

En honum er boðið að sinna störfum innan kirkjunnar. Hann fær að vera innan um æðstu embættismenn, biskupa frá Norðurlöndum og fleiri?

Ritari biskups bankar aftur í borðið og nú af meiri þunga.

„Þetta var opin athöfn og öllum boðið.“

Ég var sjálfur á staðnum og mér fannst mjög furðulegt tilfinning og mjög einkennilegt að vita af því að þarna væri einstaklingur sem hefði verið sakaður um kynferðisbrot gegn tíu ára gamalli stelpu.

Ritari biskups grípur nú inn í og segir: „Jæja …“

„Svoleiðis gjörningur er náttúrlega alltaf hryllingur og á ekki að líðast. Því miður þá gerist svona. Eftir að svona gerist þá verðum við að reyna að vinna úr því á sem skynsamlegastan hátt fyrir alla aðila. Hvort það var í þessu tilfelli, þá var þetta allavega gert samkvæmt bestu vitund og getu, og að því virðist sátt við þolandann. Svo veit ég ekki meira um málið.“

Ritari biskups: „Tíminn er kominn.“

Varðandi þennan fund sem haldinn var með ættingjum og fleirum …

„Ég er búin að segja þér hvernig þetta var.“

Ritari biskups grípur aftur inn í: „Tíminn er kominn.“

Ein spurning í viðbót varðandi kynferðisbrot almennt. Nú höfum við séð að kirkjan leyfir fyrrverandi starfsmönnum sem brotið hafa af sér að taka þátt í athöfnum. Mun kirkjan í framhaldi leyfa núverandi starfsmönnum sem hafa gerst brotlegir að stunda störf fyrir kirkjuna? Þetta er virkilega mikilvæg siðferðisleg spurning.

„Ég veit það. Þetta er ein af þeim spurningum sem við þurfum að glíma við og við verðum að líta á hvert mál út af fyrir sig. Almennt er það þannig að við eigum að vanda okkur í kirkjunni og við líðum ekki brot af neinu tagi.“

En hann fær að vera enn þá á meðal ykkar?

„Hvað á að gera við þann sem hefur brotið af sér?“

Þetta var barnaníð, sem er alvarlegt brot?

„Það er hræðilegt! Og á ekki að viðgangast,“ segir Agnes.

Ritari biskups og annar maður reyna nú að stöðva viðtalið.

Blaðamaður spyr: Hvernig verður þetta?

„Þetta verður þannig að við erum að glíma við siðferðislegar spurningar alla daga og gerum það alltaf frá þeim grunni sem við höfum, sem er kærleiksboðskapur Jesús Krists. Fyrir mína parta þá líð ég ekki neitt illt í kirkjunni og reyni að vinna með það ef það kemur upp, og tek það mjög nærri mér.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum
Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku