fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Erlendir starfsmenn borga 75 þúsund krónur fyrir að deila 10 fm. herbergi – 122 með lögheimili í einbýlishúsi í Árbænum

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 25. maí 2018 09:20

Malarás 16. Í þessu 322 fermetra einbýlishúsi,, sem er í eigu dótturfélags GAMMA, eru 122 útlendingar skráðir með lögheimili. Stór hluti þeirra hefur verið á launaskrá hjá Elju.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erlendir starfsmenn sem koma hingað til lands á vegum starfsmannaleiga eru að öllum líkindum einn jaðarsettasti hópur íslensks samfélags. Þessir einstaklingar koma hingað til að vinna í skamman tíma á lágum launum og rödd þeirra heyrist aldrei. DV ræddi við einn slíkan starfsmann, sem er af slavnesku bergi brotinn, en hann kom hingað til lands á vegum Elju – þjónustumiðstöð atvinnulífsins ehf. sem er umsvifamesta starfsmannaleiga landsins.

Viðmælandi, sem er menntaður í sinni iðn, er ánægður með viðmót íslenskra samstarfsfélaga í sinn garð en segist kunna illa við þá tilfinningu að vera á lægri launum en ómenntaðir Íslendingar. Þá segir hann farir sínar ekki sléttar varðandi húsnæðið sem fyrirtækið útvegaði honum sem hann telur vera á okurverði. Viðmælandinn deilir tæplega 10 fermetra herbergi með öðrum ókunnugum einstaklingi og greiðir fyrir það 75 þúsund krónur á mánuði. Framkvæmdastjóri Elju segir að félagið hafi engar tekjur umfram kostnað af því að útvega erlendum starfsmönnum húsnæði. Það sé ekki skilyrði fyrir ráðningu starfsmanns að viðkomandi leigi af af Elju, starfsmenn ráði því hvar þeir búa.

 

„Þetta er mjög þröngt“

Elja – þjónustumiðstöð atvinnulífsins ehf. er með stærstu markaðshlutdeild á starfsmannaleigumarkaði en rúmlega 500 starfsmenn starfa hérlendis á vegum félagsins. Rúmlega 2.000 manns hafa starfað hjá fyrirtækinu hjá tæplega 200 samstarsfyrirtækum. Fyrirtækið var stofnað árið 2015 en vöxtur þess hefur verið ævintýralega hraður. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2016 voru rekstrartekjur félagsins orðnar um 860 milljónir króna ári síðar og síðan þá hefur leiðin bara legið upp á við. Fyrirkomulagið er á þá leið að erlendu starfsmennirnir skrifa undir samning við félagið áður en þeir koma til landsins en greiða sjálfir fyrir flugfarið. Starfsmennirnir eru launþegar hjá Elju en fyrirtækið rukkar síðan fyrir útselda vinnu þessara starfsmanna. Ekki er gefið upp hvaða álag Elja setur á þessa vinnu. Á vef félagsins kemur fram að lágmarksviðmið varðandi kjör starfsmanna séu gildandi kjarasamningar en „oft sé borgað meira“.

Það gildir þó ekki um viðmælenda DV. Hann fær ekki krónu meira. Eins og áður segir er hann af slavnesku bergi brotinn og hefur unnið fyrir Elju í nokkra mánuði. Hann er menntaður í sinni iðn og tímakaup hans er 2.250 krónur á tímann sem er lágmarkstaxti. Það gera mánaðarlaun upp á tæplega 390 þúsund krónur. Hann segir að um góð laun sé að ræða miðað við hvað sé í boði í heimalandinu. „Ég áttaði mig samt  fljótlega á því að ég er á mun lægri launum en íslenskir kollegar mínir, jafnvel þó að þeir hafi ekki sömu menntun né reynslu. Það er auðvitað ekki góð tilfinning,“ segir viðmælandinn sem vill ekki láta nafns síns getið. Þess má geta að meðallaun iðnaðarmanna á Íslandi eru um 572 þúsund krónur samkvæmt upplýsingum frá Samiðn.

Viðmælandinn segist þó að mestu leyti vera afar ánægður með að starfa á Íslandi. Sérstaklega sé viðmót íslenskra yfirmanna og samstarfsmanna gott. Hér sé borin virðing fyrir erlendum starfsmönnum og þeim sýnt vinarþel. Hann hafi áður starfað í Noregi og þar sé litið niður á erlenda starfsmenn og ekki komið vel fram við þá.

Það sem fer þó fyrir brjóstið á viðmælanda blaðsins. er húsnæðið sem honum er boðið uppá. Um er að ræða herbergi í stóru einbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu sem er í eigu Domus eigna slhf., sem er sjóður sem rekinn er af GAMMA. Herbergið er aðeins um 8-10 fermetrar að stærð en því deilir viðmælandi DV með öðrum ókunnugum manni. „Þetta er mjög þröngt. Það er kannski meter á milli rúmanna okkar og bara pláss fyrir einn lítinn fataskáp,“ segir maðurinn. Fyrir þessa gistingu borgar hann 75 þúsund krónur og mánuði. „Ég var búinn að heyra að leigumarkaðurinn væri dýr á Íslandi en ég hef ekki séð dæmi um svona verð,“ segir hann.

122 útlendingar með lögheimili í einbýlishúsi í Árbæ

Eins og áður segir er húsið sem viðmælandi DV dvelur í í eigu Domus eigna slhf. sem er í eigu sjóðsins GAMMA:Domus. Sami sjóður á félagið Domus eignir 2 slhf. en þessi tvö félög, Domus og Domus 2, eiga fjölmargar eignir á höfuðborgarsvæðinu. Sama gildir um félögin E-fasteignafélag ehf., Almenna Red ehf. og Red ehf. sem öll eru í rekstri eða í eigu GAMMA. Í fasteignum þessara félaga dvelja fjölmargir starfsmenn Elju. Þannig má nefna Malarás 16 sem dæmi. Um er að ræða 322 fermetra einbýlishús í Árbænum en þar eru hvorki fleiri né færri en 122 erlendir einstaklingar skráðir með lögheimili samkvæmt þjóðskrá. Augljóslega hefur aðeins brot þeirra þar aðsetur, flestir eru farnir úr landi eða komnir í annað húsnæði. Annað dæmi er Keilisbraut 745 á Ásbrú en þar eru 92 útlendingar skráðir með lögheimili sitt, hluti þeirra hefur verið á launaskrá hjá Elju. Þá má nefna Bröndukvísl 9 í Árbænum en í því einbýlishúsi eru 38 erlendir starfsmenn skráðir með lögheimili.

Það sýnir ágætlega umfangið að samkvæmt lauslegri talningu DV á fasteignum í eigu ofangreindra félaga eru um 506 erlendir einstaklingar skráðir með lögheimili sitt í 19 fasteignum, sem flest eru einbýli eða raðhús, í eigu félaga sem tengjast GAMMA.

Þannig vill til að eigendur Elju er flestir starfsmenn dótturfélags GAMMA, Heildar fasteignafélags. Stærsti eigandi starfsmannaleigunnar er Arnar Hauksson með 86,67% hlut. Hann á 80% í gegnum félagið ÞA eignarhaldsfélag ehf. og 6,67% í gegnum félagið Quarks ehf. Arnar er fyrrverandi starfsmaður GAMMA en færði sig nýlega um set yfir í Heild fasteignafélag ehf., dótturfélag GAMMA. Þar starfar hann sem ráðgjafi. Þess má geta að Arnar er bróðir Gísla Haukssonar, annars af tveimur stofnendum GAMMA og fyrrverandi forstjóra og síðar stjórnarformanns félagsins. Gísli lét af störfum hjá GAMMA í febrúar á þessu ári en hann er ennþá einn stærsti hluthafinn. Framkvæmdastjóri Arnars hjá Heild er einnig hluthafi í Elju. Það er Pétur Árni Jónsson, sem er helst þekktur fyrir að vera eigandi Viðskiptablaðsins. Hann á 6,67% hlut í gegnum félagið PÁJ Invest ehf. Síðasti hluthafinn er Jón Einar Eyjólfsson sem á einnig 6,67% hlut í gegnum félag sitt Hemju ehf.

Hafa gert athugasemdir við starfsemina

Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar.

Viðmælandi DV er meistari í sinni iðn, eins og áður hefur komið fram. Í ljósi þess ætti hann með réttu að vera skráður í Samiðn eins og fjölmargir kollegar hans sem státa af sambærilegri menntun. Það er þó ekki svo heldur er meirihluti starfsmanna á vegum Elju skráður í Eflingu sem er ætlað ófaglærðu starfsfólki. „Það eru engir starfsmenn Elju í byggingariðnaði skráðir hjá Samiðn. Að okkar mati er félagið ekki að virða nám og réttindi starfsmanna og við höfum gert alvarlegar athugasemdir við þessa háttsemi,“ segir Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar.

Lágmarkstaxti Samiðnar fyrir menntaðan iðnaðarmann er 2.249 krónur og því uppfyllir viðmælandi DV þær kröfur. Þorbjörn bendir á að það þurfi ekki að gilda varðandi aðra erlenda iðnaðarmenn sem hingað koma á vegum Elju. „Þeir eru skráðir inn sem ómenntaðir iðnaðarmenn og gætu því þurft að sætta sig við laun sem eru samkvæmt kjarasamningum Eflingar og því lægri en þeim ber. Það er brot á EES-reglum að viðurkenna ekki nám og réttindi starfsmanna,“ segir Þorbjörn. Hann segir að Samiðn hafi átt fundi með Elju vegna málsins og úrbótum hafi verið lofað. Lítið hafi þó orðið um efndir. „Við höfum sent ítrekanir en þeim hefur ekki verið svarað,“ segir Þorbjörn.

Þorbjörn segir að starfsmannaleigur ættu að vera góð viðbót við íslenskt atvinnulíf ef rétt væri haldið á spilunum. „Það er að mínu mati jákvætt ef fyrirtæki hafa þann valkost að ráða erlenda starfsmenn tímabundið til þess að brúa ákveðin tímabil. Þróunin virðist þó vera á þá leið að hér eru að verða til tvö launakerfi, eitt fyrir útlendinga og annað fyrir Íslendinga. Það tel ég vera slæma þróun,“ segir Þorbjörn.

Eiga í harðri samkeppni um starfsmenn

Arthúr Vilhelm Jóhannesson, framkvæmdastjóri Elju, telur gagnrýni Þorbjörns byggjast á misskilningi. „Það er ekki mikil ásókn í iðnaðarmenn yfir vetrartímann. Með hækkandi sól reikna ég með að það fjölgi í þeim hópi hjá okkur. Við leggjum okkur fram að við að skrá okkar starfsmenn í rétt stéttarfélög,“ segir Arthur. Hann nefnir sem dæmi að talsvert hafi verið um að rafvirkjar hafi verið ráðnir til starfa og þeir séu að sjálfsögðu skráðir í Rafiðnaðarsambandið. „Við förum eftir kjarasamningum í hvívetna og ráðningarsamningar eru sendir til Vinnumálastofnunnar. Við teljum okkur einnig hafa átt mjög gott samstarf við verkalýðsfélög og samstarfsfyrirtæki,“ segir Arthúr.

Hann segir ósanngjarnt að halda því fram að Elja borgi erlendum starfsmönnum lág laun. „Það er gríðarleg eftirspurn eftir góðum starfsmönnum í Evrópu og við eigum í harðri samkeppni við Noreg og Þýskaland. Við þurfum því að geta boðið uppá samkeppnishæf laun. Þá leggjum við líka mikið upp úr faglegum ráðningum með samstarfi við erlendar ráðningarstofur auk þess sem við gerum ýmsar aukakröfur eins og að starfsmenn framvísi sakavottorði. Það er til dæmis ekki farið fram á það í Þýskalandi, slík er eftirspurnin eftir starfskröftum og krafa um að ferlið gangi hratt fyrir sig,“ segir Arthúr.

Arthúr Vilhelm Jóhannesson, framkvæmdastjóri Elju.

Elja gerir venjulega um sex mánaða samninga við starfsmenn sína en fyrirtækið metur það sem svo að samstarfið hafi gengið upp ef starfsmaðurinn ílengist hér á landi. „Við heyrum í öllum starfsmönnum tveimur mánuðum fyrir samningslok og tökum stöðuna hjá þeim. Sumir ráða sig áfram hjá okkur en aðrir ráða sig kannski beint til fyrirtækjanna sem við áttum samstarf við. Við lítum á það sem sigur og að samstarfið hafi verið til hagsbóta fyrir alla,“ segir hann.

Húsaleiga ekki skilyrði fyrir vinnu

Varðandi háa húsaleigu segir Arthúr að Elja hafi engar tekjur umfram kostnað af því að útvega erlendum starfsmönnum húsnæði. „Það er ekki skilyrði fyrir ráðningu starfsmanns að hann leigi af Elju heldur er þetta nauðsynleg þjónusta fyrirtækisins vegna mjög erfiðs ástands á húsnæðismarkaðinum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hann. Starfsmenn ráði því hvar þeir búa. „Þeir starfsmenn sem kjósa að leigja af Elju greiða húsaleigu og Elja útvegar allan búnað sem þarf til daglegra nota, líkt og leirtau, rúm og sængurföt, þráðlaust net, þvottavél og þurrkara.“

Hann bendir á að Elja sé með langtímahúsnæði á leigu og það sé ekki alltaf í fullri nýtingu. „Þegar starfsmenn fara í frí, til dæmis í kringum jólin, þá greiða þeir ekki fyrir húsnæði á meðan og þá fellur kostnaður á okkur. Þá eru við með starfsmenn á launum sem þjónusta húsnæðið. Ef starfsmenn kjósa að við útvegum húsnæði er leigukostnaðurinn kynntur fyrir starfsmönnum áður en þeir koma til landsins og farið yfir það í ráðningaviðtali. Við teljum leiguna hjá okkur sanngjarna að teknu tilliti til þjónustunnar. Starfsmenn greiða leiguna eftir á og við förum ekki fram á sérstakar tryggingar eins og á hefðbundnum leigumarkaði,“ segir Arthúr.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Í gær

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Í gær

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum