fbpx
Fréttir

Jens var flugmaður Primera Air: „Ef maður var veikur varð maður að fljúga eða lækka í launum“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 10. október 2018 11:59

Jens var flugmaður Primera Air: „Ef maður var veikur varð maður að fljúga eða lækka í launum“

„Þetta var fyrsta fyrirtækið sem ég vann fyrir sem ég gat ekki mælt með fyrir aðra,“ segir Jens Anker Nielsen, fyrrverandi flugmaður Primera Air sem varð gjaldþrota í liðinni viku. Jens er með rúmlega þrjátíu ára reynslu sem flugmaður og segir hann að starfsumhverfið hjá Primera hafi ekki verið eins og best verður á kosið.

Jens sagði frá þessu í samtali við danska fjölmiðla í gær og er umfjöllunin til dæmis ein sú mest lesna á vef BT í Danmörku.

Jens segir að flugmenn hjá Primera Air hafi fengið borgað eftir flugtíma og ekki átt rétt á mörgum veikindadögum. Sjálfur var Jens á ráðningarsamningi hjá Aviation Staffing ASTA á Möltu og segir Jens að flugmenn þess félags hefðu unnið fyrir Primera – hann þar á meðal.

Flugmennirnir fengu aðeins tíu veikindadaga á ári og þá höfðu þeir ekki rétt á launuðu sumarleyfi. Bendir hann á að flugmenn hafi margir hverjir verið reynslulitlir og sumir mætt illa sofnir í flug. Segist Jens meðal annars af þessum sökum setja spurningamerki við öryggismál fyrirtækisins.

Samkvæmt gögnum sem Jens sýndi dönskum blaðamönnum réðust laun hans meðal annars af því hversu lengi hann var í loftinu. Þar sem flugmenn fengu greitt eftir flugtíma segist hann ekki efast um að margir hafi verið ragir við að tilkynna veikindi þegar þeir voru raunverulega veikir. „Ég veit um flugmenn sem hafa flogið þegar þeir voru veikir. Það var annað hvort að fljúga eða lækka í launum,“ segir hann og bætir við að um stórar upphæðir hafi stundum verið að ræða fyrir flugmenn, nokkur hundruð þúsund krónur jafnvel.

Jens kallar eftir því að kerfi eins og tíðkaðist hjá Primera Air verði skoðað af flugeftirlitsaðilum og réttindi flugmanna verði betur tryggð, farþegum og þeim sjálfum til hagsbóta. „Primera Air er ekki einangrað dæmi,“ segir hann og bendir á að samskonar kerfi séu við lýði hjá öðrum flugfélögum.

Peder Hornshøj, framkvæmdastjóri Bravo Tours og Sun Tours og fyrrverandi stjórnarmaður Primera Air, vísaði gagnrýni Jens til föðurhúsanna. „Þjónusta Primera Air hefur alltaf verið til fyrirmyndar og við höfum aldrei efast um að fyllsta öryggis sé ekki gætt,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

80 prósent íslenskra fyrirtækja hafa orðið fyrir árásum tölvuþrjóta

80 prósent íslenskra fyrirtækja hafa orðið fyrir árásum tölvuþrjóta
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Flensan er komin til landsins

Flensan er komin til landsins
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórarinn ætlar að gera hvað sem er til að koma í veg fyrir að IKEA-geitin verið brennd niður aftur: „Þetta er eins og í Tomma og Jenna“

Þórarinn ætlar að gera hvað sem er til að koma í veg fyrir að IKEA-geitin verið brennd niður aftur: „Þetta er eins og í Tomma og Jenna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Efni keypt af verktökum með 10% álagi – „Það var samið um það“

Efni keypt af verktökum með 10% álagi – „Það var samið um það“