Allar líkur eru á því að Nýja Delí á Indlandi verði nýr áfangastaður WOW Air í Asíu. Félagið hefur boðað til blaðamannafundar á Oberoi hótelinu í útjarði borgarinnar næstkomandi þriðjudag þar sem áform WOW air í Asíuflugi verða kynnt. Danski miðilinn Checkin greinir frá þessu.
Í samtali við Viðskiptablaðið á dögunum kvaðst Skúli Mogensen forstjóri WOW Air eiga von á því að mesti vöxtur Wow á næstu árum verði í Asíuflugi. Þá sagðist hann sjá fyrir sér að WOW myndi á næstu árum bjóða upp á flug til 14-15 áfangastaða í álfunni.
DV greindi frá því á dögunum að Icelandair hyggst bjóða upp á áætlunarflug til Indlands á næsta ári. Ekki hefur þó verið gefið upp um hvaða borgir á Indlandi er að ræða en Nýja Delí er talin koma sterklega til greina, eða þ Mumbai, fjölmennasta borg Indlands. Í báðum tilvikum er flugtíminn rúmlega tíu klukkustundir.
Á blaðamannafundinum næstkomandi þriðjudag mun Skúli Mogensen forstjóri WOW Air tilkynna hver verður fyrsti áfangastaður flugfélagsins í Asíu en vegna staðsetningar fundarins er talið líklegt að um Nýju Delí verði að ræða.
WOW Air verður þar með fyrsta lággjaldaflugfélagið sem býður upp á beint flug á milli Indlands og Evrópu. Indverska lággjaldaflugfélagið Indigo Airlines hefur áður auglýst áform sín um lággjaldaflugferðir til Evrópu en svo virðist sem að WOW Air muni ná forskoti á þeim markaði.
Fjórar breiðþotur af gerðinni Airbus 330-900 munu bætast við flugflota WOW Air síðar á árinu en félagið á í dag þrjár Airbus A330-300. Ekki er vitað hvaða gerð af breiðþotum verður notuð í Asíufluginu.