fbpx
Föstudagur 03.maí 2024
Fréttir

„Elsku hjartans strákurinn minn fyrirfór sér í klefa sínum á Litla Hrauni“

Auður Ösp
Sunnudaginn 6. maí 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Þann 13. febrúar síðastliðinn tók Styrmir Haukdal Kristinsson þá afdrifaríku ávörðun að enda líf sitt. Styrmir afplánaði fangelsisdóm á Kvíabryggju en fráfall hans var annað sjálfsvíg fanga á innan við ári. Starfsfólk og aðrir fangar voru harmi slegnir vegna atburðarins.  Styrmir hafði sárlega þurft á sálrænni aðstoð að halda en fékk einungis viðtal við sálfræðing í gegnum samskiptaforritið Skype.

Í kjölfarið kviknaði umræða í samfélaginu um skelfilegt ástand í geðheilbrigðismálum fanga. Afar mikilvægt er að fangar fái sálfræðiþjónustu en í rannsókn Boga Ragnarssonar, nema í félagsfræði við HÍ, sem var birt 2013, kom fram að 54–69 prósent fanga glímdu við þunglyndi. Þá hefur um þriðjungur fanga reynt sjálfsvíg.

Þetta ástand kemur Ragnheiði Hilmarsdóttur ekki á óvart. Sonur hennar, Hilmar Már Gíslason, var 21 árs gamall þegar hann svipti sig lífi í fangelsi í ágúst 2007. Hilmar Már fékk aldrei að hitta sálfræðing eða geðlækni á meðan hann sat á bak við lás og slá þótt hann hafi verið í brýnni þörf. Til þess að takast á við sorgina opnaði Ragnheiður bloggsíðu og skrifaði sögu sonar síns og hvað betur mætti fara varðandi sálgæslu fanga. Á þessum ellefu árum hefur ekkert breyst og það ber yfirvöldum ekki fagurt vitni.

„Son minn hef ég aldrei skammast mín fyrir og sér í lagi ekki nú þegar hann er látinn. Elsku hjartans strákurinn minn fyrirfór sér í klefa sínum á Litla-Hrauni síðastliðna nótt,“ skrifaði Ragnheiður  þann 19. ágúst 2007.

Hilmar Már var 21 árs gamall þegar hann svipti sig lífi í fangelsi. Í annarri færslu skrifaði hún: „Hann var það sem fólk kallar óalandi. Hann braust inn í bíla. Hann stal bílum. Hann braust tvisvar inn í hús. Hann ók próflaus. Hann ók of hratt. Hann prufaði dóp. Hann prufaði líka vín. En hann var strákurinn minn og ég missti aldrei vonina um að hann myndi sjá að sér og hætta óþægðinni.“

Með hjarta úr gulli

Saga Hilmars er að mörgu leyti dæmigerð fyrir ungan pilt sem leiðist út í afbrot: hann var greindur með ofvirkni og athyglisbrest og átti erfitt uppdráttar í skóla. Hann var misþroska, en að sögn Ragnheiðar var lítið um úrræði fyrir hann. Hann passaði hvergi inn í kerfinu. Hann kunni illa við áhrifin af ofvirknilyfjum og þurfti að finna leið til að fá útrás.

„Hilmar minn var þannig að hann kunni ekki að stjórna ofvirkninni sinni. Það hefði hann þurft að læra betur á. Í dag veit fólk mun meira um ofvirkni en það gerði. Hann var settur á lyf en það eitt er ekki nóg þegar ungir mann neita svo lyfjagjöf. Þegar hann hætti á lyfjunum þá var hann eins og blaðra, full blaðra sem maður sleppir áður en maður er búinn að binda hnútinn á hann. Blaðran fer um allt þar til loftið er búið.“

Hilmar var að hennar sögn ráðvilltur ungur maður, með hjarta úr gulli.

„Hann var krútt. Hann hringdi í mig flesta mæðradaga og sagði: „Til hamingju með daginn!“ Stundum vissi ég ekkert hvað hann var að tala um og þá flissaði hann og sagði: Mamma! Það er mæðradagurinn! Þetta tókst honum að muna, blessuðum. Hann kom oft við hjá mér í vinnunni og ég fékk knús. Enn horfi ég á ókunnuga bíla fyrir utan og sakna Himma.“

Hilmar var á tímabili vistaður á Stuðlum, en ekki vegna neyslu heldur vegna hegðunarvandamála. Fíkniefnaneysla var að sögn Ragnheiðar ekki vandamál hjá honum.

„Hann var aldrei í neinni stórvægilegri neyslu, hann var svo ofvirkur og það gekk svo mikið á hjá honum. Hann var að stela úr bílum, hann var mikill bíla- og græjukall. Hann braut oft af sér, en hann var ekki hættulegur. Hann var aldrei dæmdur fyrir ofbeldisbrot eða dópsölu.

Hún tekur fram að hún hafi aldrei reynt að hylma yfir brot Hilmars. Hann hafi átt allt sem hann var dæmdur fyrir, enda gekkst hann nær alltaf við brotunum.

„Ég hef hvergi stutt það að fangar taki ekki út dóm fyrir sín afbrot. Ég vil hins vegar að lögð sé áhersla á að það sé hægt að skila þeim betri út í þjóðfélagið, þá með betri og skilvirkari geðlæknaþjónustu og öðru slíku sem má betur fara.“

Vistaður með ofbeldismönnum

Hilmar hlaut fyrst fangelsisdóm 19 ára gamall þegar hann fékk 45 daga skilorð fyrir nytjastuld. Þegar hann var 21 árs hafði hann hlotið alls 15 dóma fyrir ýmis brot, oftast var um að ræða smávægileg brot á borð við umferðarlagabrot eða þjófnaði. Hann afplánaði tvisvar sinnum dóm í fangelsi.

„Í raun var Himmi meinlaus en agalega vegvilltur. Ég ætla ekki að reyna að útskýra líðan móður þegar hún horfir á eftir ástkæru barni í fangelsi í fyrsta sinn. Ég var svo ónýt, ég var sár og reið, fannst ég hafa brugðist, vildi ekki vera mamma neins og var bara ómöguleg. Þetta er svo ekki eitthvað sem maður tekur til umræðu í fjölskylduboðum, ég fór bara ekki meðal fólks. Mín leið en ekki endilega rétt leið.“

Í maí 2007 var gert Hilmari  að sitja inni í þrjá mánuði, vegna ofsaaksturs. Hann sagði við mömmu sína að hann hefði ekki þorað að stoppa fyrir löggunni af því að hann var viss um að hann hefði drukkið of mikið.

Hann fór inn á Hraunið í júní en þar sem að þetta var hans þriðja afplánun var hann vistaður á hinum svokallaða lávarðagangi á Hrauninu, innan um dæmda morðingja og ofbeldismenn. Það gagnrýnir Ragnheiður harðlega.

„Þarna taka þeir þessa ungu stráka og hreinlega murka úr þeim lífið. Hann var þarna 21 árs gamall og þar að auki misþroska og því mikið eftir á sumum sviðum. Ungur og áhrifagjarn strákur innan um alla þessa sterabolta, hann verður auðvitað bara að engu.“

Hilmar hitti aldrei sálfræðing eða geðlækni á meðan hann sat í fangelsi. Nokkrum mánuðum eftir dauðsfall hans ritaði Ragnheiður á bloggið:

„Ég hef sagt ykkur að Hilmar var góðhjartaður, hann var stundum einum of góðhjartaður. Ef ég hefði til dæmis sagt honum að Jói Jóns væri vondur við mig og skuldaði mér aura þá hefði Hilmar brugðist við. Hann hefði ekki lamið Jóa en hann hefði farið og sótt eitthvað af eigum hans í bætur. Hálfgerður Hrói Höttur, á skakkan máta.

Í fyrra varð hann var við að systir hans var eitthvað blönk. Hann sendi vinkonur sínar með aura og keypti af henni bílinn. Hann bjargaði málum þar. Þá sat hann inni og fékk einmitt viðbótardóm meðan hann sat inni. Það fannst honum erfitt þá. Það sama var að gerast nú, núna gat hann það ekki og gafst upp.

Ragnheiður segir engan hafa séð fyrir að Hilmar myndi binda enda á líf sitt í fangelsinu. Á þeim tíma hafði hann afplánað sex vikur af tólf.

„Ég segi alltaf að hann hafi gefist upp. Ég heyrði í honum stuttu áður og fann að það var eitthvað að, hann var svo niðurdreginn. Venjulega var hann kátur og hress. En þetta grunaði engan.“

Greint var frá andláti Hilmars í fréttamiðlum undir fyrirsögninni: „Fangi svipti sig lífi á Litla-Hrauni.“ En Ragnheiður óskaði þess að Hilmars væri minnst fyrir annað en það eitt að vera fangi. Í sorgarferlinu tók Ragnheiður upp á því að halda úti bloggsíðu þar sem hún opnaði sig um reynslu sína. Skrifin reyndust vera hennar haldreipi og viðbrögðin létu ekki á sér standa; aðrir aðstandendur settu sig í samband við hana og deildu svipaðri upplifun. „Þarna sat ég uppi með tvö tabú. Annað var sjálfsvíg og hitt var það að vera móðir fanga. En um leið og presturinn hafði kvatt okkur þá ákvað ég að núna ætlaði ég ekki lengur að fela þetta, ég ætlaði að sýna fólki hvernig þetta er.“

Allra hagur að menn komi bættir út

Ragnheiður hefur skýra sýn á það sem betur má fara varðandi sálgæslu í fangelsum, eða öllu heldur skort á henni.

„Fyrst og fremst þarf að bæta þjónustuna við fangana. Að þeir fái þessa sálfræðiþjónustu, að það sé hægt að greina þá og komast að rót vandans. Það vantar úrræði og sveigjanlega. Þessi hugsun, að loka þessa stráka bara inni og henda lyklinum, hún virkar ekki og það sjá  allir. Þá koma þeir bara nákvæmlega eins út. Það hlýtur að vera okkur öllum til góða að þeir komi út sem betri menn og nýtir þjóðfélagsþegnar.Þess vegna er bráðnausðynlegt að hafa sérfræðinga, geðlækni og sálfræðinga til staðar inni í fangelsunum.“

Ég myndi vilja gjörbreyta inni í fangelsunum sjálfum með mikilli áherslu á að koma föngum í starfhæft ástand með mjög markvissum aðgerðum til að byggja þá upp. Fólk segir oft að fangar eigi ekkert gott skilið og það eigi bara ekki að eyða skattpeningunum í þá. Þessu er ég ósammála. Það er allra hagur að menn komi í góðu ástandi út úr fangelsum, þá eru mun minni líkur á að menn brjóti af sér aftur og fólk þyrfti kannski ekki eins mikið að óttast þá. Ég geri mér líka grein fyrir að ekki er unnt að koma öllum föngum á rétta braut en á meðan við sjáum svona um fangana þá er nánast engin von um að þeir komi betri út og þeir halda áfram að vera þessi ógn við löghlýðna borgara.

„Ég veit um einn strák sem var búinn að vera inn og út af Hrauninu en fékk að hitta geðlækni í síðustu afplánuninni sem gaf honum viðeigandi greiningu. Þessi strákur braut aldrei af sér eftir það. Það þurfti ekki annað en að setjast niður með honum og finna hvað var að honum. Þessir strákar vilja ekki vera svona,“ segir Ragnheiður og bætir við að það hefði ekki þurft mikið til að hjálpa Hilmari.

„Það hefði ekki verið mikið mál að koma honum fyrir á stað sem hentaði honum betur, þar sem hann hefði fengið einhverja aðstoð. Þó að það hefði ekki verið nema bara stutt spjall. Vel þjálfaður sálfræðingur hefði ekki þurft að spjalla lengi við hann til að vita hvernig best væri að meðhöndla hann.“

Ragnheiður bendir jafnframt á að hluti vandans liggi í því að fangarnir koma ekki að fyrra bragði og biðja um aðstoð. „Ég veit að þeir vilja fá hjálp en fá sig ekki til þess að biðja um hana. Vegna þess að það er veikleikamerki og það vilja þeir ekki sýna frammi fyrir hinum föngunum. Þeir eru með svo svakalega mikinn front.“

Erfitt að losna við stimpilinn

Hún tekur undir að blessunarlega hafi umræðan um sjálfsvíg náð að opnast örlítið á undanförnum árum. Lítið sem ekkert hefur þó þokast í málefnum fanga. Og ennþá grassera fordómar í þeirra garð. Umræðan berst að viðhorfum fólks í garð „krimmanna“ á Hrauninu. Óhreinu börnunum hennar Evu.

„Um leið og þeir eru komnir inn þá fá þeir þennan stimpil, fangi. Þá eru þeir bara krimmar sem enginn vill skipta sér af. En sonur minn var meira en bara fangi, hann var allt mögulegt annað. Fyrir yngri systkinum sínum var hann ekki fangi, hann var Himmi stóri bróðir, svalasti náungi sem þau höfðu nokkurn tímann hitt. Þetta eru ekki skrímsli. Fólk sér ekki mannlegu hliðina á þeim.“

Hún segist þó ekki vera reið út í kerfið. „Ég hef aldrei verið reið út í neitt eða neinn. Ég sé bara ennþá skýrar hvað hægt er að laga og hvar við þurfum að byrja. Fangelsi á að vera betrunarvist, ekki refsivist. Við hljótum að geta gert betur við þennan hóp.

„Hann var strákurinn minn“

Haustið 2007 skrifaði Ragnheiður á bloggið:

„Hilmar minn er eitt þeirra barna sem ekki pössuðu í normið. Oftar en ekki var hann búinn að gera skammir af sér, hann virtist framkvæma hraðar en heilinn vann. Oftast vissi hann vel að um afbrot var að ræða. Hann varð ótrúlega sár við sjálfan sig. Þegar hann lést í fyrra þá misstum við svo mikið, við misstum strák sem elskaði okkur öll með stóra hjartanu sínu. Við elskuðum hann líka öll til baka. Annað var ekki hægt. Einn hans mesti kostur var hversu góður hann var, hann var meinlaus. Hann lenti í erfiðum aðilum, sem vildu láta hann bæta tjón sem hann olli. Á því hafði hann sjaldnast möguleika nema þegar hann sat þá inni fyrir brot sín. Þeir hræddu hann. Þeir hræddu okkur, stundum í gegnum hann. Hann reyndist of meinlaus þegar upp var staðið, þeir brutu hann.

En líti ég til baka á strákinn minn, þá sé ég meinlausa bangsann minn. Ég er stolt af því að hafa fengið að vera móðir hans. Ég hefði ekki viljað missa af honum fyrir nokkurn mun. Hann var strákurinn minn, stóri, glaði og káti strákurinn minn. Ég mun elska hann allt mitt líf. Ég mun líka vera honum þakklát allt mitt líf fyrir þá ást sem hann sýndi mér. 

Hvíldu þig, ástin mín, mamma elskar þig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bönkuðu upp á hjá manninum sem braut gegn dóttur hans – Það endaði með dómsmáli

Bönkuðu upp á hjá manninum sem braut gegn dóttur hans – Það endaði með dómsmáli
Fréttir
Í gær

Íbúi í Laugardal orðinn þreyttur á suði frá sendidrónum AHA – Eigandi segir engan truflandi hávaða af drónunum

Íbúi í Laugardal orðinn þreyttur á suði frá sendidrónum AHA – Eigandi segir engan truflandi hávaða af drónunum
Fréttir
Í gær

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði
Fréttir
Í gær

Bandaríkin sendu Úkraínu nýtt vopn með mikilli leynd

Bandaríkin sendu Úkraínu nýtt vopn með mikilli leynd