Elon Musk, stofnandi Tesla, ætlar að leggja meiri áherslu á Íslandsmarkað ef marka má ummæli sem hann lét falla á Twitter í gær. Tesla framleiðir sem kunnugt er vinsæla rafbíla sem njóta vaxandi vinsælda um allan heim.
Tesla er ekki með neitt útibú eða þjónustustöð hér á landi. Fyrirtækið er þó með starfsemi í öðrum löndum, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi til dæmis.
Á Twitter á föstudag beindi notandinn A Tesla In ICEland fyrirspurn til Musk þar sem bent var á að fleiri rafbílar hefðu selst á Íslandi en í Danmörku og Finnlandi á síðasta ári. Bent var á að Tesla væri í báðum þessum löndum en ekki á Íslandi. Var Musk spurður hvað þyrfti að gera til að breyta því.
Musk svaraði að bragði og þakkaði fyrir að hafa verið látinn vita af þessu. „Ég mun hraða þessu. Afsakið biðina,“ sagði hann og af þessum orðum má búast við því að Tesla komi til Íslands fljótlega. Tesla-bílar sjást reglulega á götum hér á landi en þeim mun væntanlega bara fjölga ef fer sem horfir. Í Noregi, þar sem Tesla er með starfsemi, er bíllinn einn sá allra vinsælasti og í desember í fyrra var hann raunar mest seldi bíllinn í landinu þann mánuðinn.
Fjallað var um þetta svar Musk í grein á vef Electrek. Í greininni er ljósi varpað á vaxandi vinsældir rafbíla hér á landi og þá staðreynd að bílarnir þykja henta einkar vel hér á landi þar sem eldsneyti er tiltölulega dýrt, meðal annars vegna langra flutninga. Þá er rafmagn eitthvað sem enginn skortur er á hér á landi og loks er bent á að vegalengdir hér á landi henti vel fyrir rafbíla.
Thanks for letting me know. Will expedite. Sorry for the delay.
— Elon Musk (@elonmusk) May 5, 2018