Davíð Illugi Hjörleifsson Figved og Alexander Björn Gunnarsson segja mikla fordóma ríkja í íslensku samfélagi gagnvart transfólki. Þeir eru báðir trans menn, þeim var úthlutað kvenkyni við fæðingu en létu síðar leiðrétta kyn sitt. Í ítarlegu viðtali í Mannlíf í dag ræða þeir um kynjahlutverkin, #metoo-byltinguna og fordóma gagnvart trans fólki á Íslandi.
Sjá einnig: Útbúinn getnaðarlimur fyrir Alexander Björn úr húð af handlegg
Alexander segir að á meðan það sé mikil trans fóbía í samfélaginu þá sé líklegt að trans menn sem geta falið sig geri það. Illugi hefur fundið fyrir fordómum gegn trans fólki á eigin skinni: „Ég hef verið laminn fyrir að vera trans, með hnúajárni. Ég lenti á spítala. Það er brútal,“ segir Illugi. Hann segir fordóma birtast í ýmsum myndum:
„Fólk heldur að við séum komin langt, sem er rétt. Við erum komin langt í hinsegin baráttunni. Samt er mikið sem þarf enn að vinna í. Samkvæmt regnbogakortinu þar sem farið er yfir hve langt lönd eru komin í réttindum hinsegin fólks í lagalegum skilningi, stöndum við mjög illa. Það eru til dæmis engin lög sem banna það að hinsegin manneskja sé rekin úr starfi út af því að hún er hinsegin.“