Laust fyrir klukkan ellefu í gærkvöld gáfu lögreglumenn ökumanni merki um að stöðva bílinn sinn. Var þetta við Reykjanesbraut móts við IKEA. Lögreglan notaði blá neyðarljós en ökumaðurinn stöðvaði ekki bíl sinn fyrr en við Flatahraun. Er hann var spurður hvers vegna hann hafi ekki stöðvað fyrr svaraði hann því til að hann hafi talið að lögreglan ætlaði að stöðva einhvern annan. Ökumaðurinn var áberandi ölvaður og þvoglumæltur. Segir í dagbók lögreglu að hann sé að þeim sökum grunaður um ölvun við akstur.
Um kvöldmatarleytið í gær var tilkynnt um þjófnað við Bygggarða á Seltjarnarnesi. Brotin rúða og farið inn. Verkfærum stolið og fleiru. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvernig rannsókn málsins miðar.
Á tólfta tímanum í gærkvöld var brotist inn í húsnæði við Hvassaleiti. Var múrsteini kastað í rúðu, hurð spennt upp og mögulega farið inn. Ekki er vitað hvort einhverju var stolið.
Á öðrum tímanum í nótt var bíll stöðvaður á Reykjanesbraut við Arnarnesveg. Þar var í gangi hraðamæling lögreglu og hafði ökumaðurinn bílsins verið á 156 km hraða. Ökumaðurinn var 17 ára stúlka og var hún færð á lögreglustöð þar sem hún var síðan svipt ökuréttindum til bráðabirgða. Foreldrar stúlkunnar voru viðstaddir afgreiðslu málsins og tilkynning verður send til Barnaverndar.
Á þriðja tímanum í nótt var ofurölvi kona handtekin á veitingahúsi í Kópavogi. Lögreglumenn reyndu að aðstoða konuna heim en án árangurs. Konan var því vistuð í fangageymslu lögreglu meðan ástand hennar lagast.