Jón Helgi Þórarinsson er einn fárra Íslendinga sem eru umskornir. Hann var umskorinn er hann var sex mánaða gamall eftir að fjölskylda hans flutti til Bandaríkjanna. Jón, sem er rúmlega fimmtugur að aldri, spurði einu sinni móður sína hvers vegna þetta hefði verið gert við sig og hún sagði að þetta hefði bara verið vaninn.
Jón var í viðtali við RÚV í kvöld og þar segir hann að það verði að banna umskurð drengja á Íslandi en frumvarp þess efnis var lagt fyrir Alþingi þaðan sem því var vísað aftur til ríkisstjórnar; hefur frumvarpið vakið miklar deilur bæði í samfélaginu og út fyrir landsteinana.
Þegar Jón sneri aftur barnungur til Íslands tók við skelfilegt einelti því hann var eini umskorni drengurinn í skólanum:
„Ég veit ekki hvort fólk getur gert sér í hugarlund hvað það þýðir að vera eini umskorni strákurinn í skólanum. Það heita helvíti sem þú þarft að ganga í gegnum hvern einasta dag, kvölds og morgna, í hádeginu, í íþróttatímanum. Þú kemur í sturtu og það hlaupa allir í burtu af því að af því að hann þarna með afskræmda typpið er að koma. Það veit enginn hvað þetta er heldur. Það hafði enginn heyrt um umskurð, þannig að það var verið að finna alls kyns nöfn fyrir fyrirbærið. Venjulegast var svona brettutyppi notað í mikið af söngvunum. Að upplifa það að vera átta, níu ára og tíu ára, að það eru til söngvar um typpið á þér sem allir kunna, sem eru gjarnan kyrjaðir í skólastofunni áður en kennarinn kemur inn, á leiðinni heim, á aftasta bekk í bíó og alls staðar,“ sagði Jón Helgi í viðtali við RÚV.
Jón segir einnig að líkamlegur sársauki hafi hlotist af umskurðinum: „Ég man þegar ég er fimm, sex og ára gamall. Það er enn þá allt helaumt og má ekkert við koma.“
Jón hefur reynt að fá áheyrn hjá ráðamönnum til að koma á framfæri boðskap sínum gegn umskurði en án árangurs. Hann sagði á tilfinningaþrungnu augnabliki í viðtalinu við RÚV: „Við verðum að koma þessu í gegn, við verðum…“