Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu, er best þekktur fyrir kjarnorkusprengjuögranir og að kúga þegna sína, ekki fyrir húmor og gamanmál. Það gæti hins vegar breyst eftir að Kim sagði brandara við Moon Jae-In forseta Suður-Kóreu á friðarfundi þeirra í morgun.
Líkt og DV greindi frá í morgun hafa löndin samið um frið á Kóreuskaga eftir að hafa verið í stríði, þó með vopnahléi, í rúm 65 ár. Í friðarferlinu er Kim að reyna að breyta ímynd sinni úr óforskömmuðum harðstjóra í friðarboða, sagði hann þá brandara við starfsbróður sinn í suðri:
„Ég er hættur að skjóta upp flugskeytum, þá hætti ég vonandi að trufla svefninn þinn snemma á morgnanna.“
Vísaði hann þar til flugskeyta tilrauna Norður-Kóreumanna sem hafa valdið nágrönnum sínum í suðri miklu hugarangri síðustu ár. Þetta er líklegast sú tegund af brandara sem krefst þess að maður hefði þurft að vera á staðnum til að kunna að meta hann.