Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, hefur tekið myndir af dularfullum holum sem hafa fengið vísindamenn um allan heim til að klóra sér í höfðinu. Myndirnar voru teknar í rannsóknarflugi yfir Beaufort-hafi fyrir norðan Kanada.
Aldrei áður hafa náðst myndir af slíkum fyrirbærum, holur í ísbreiðunni þar sem engar holur eiga að vera.
„Við sáum þessar hringlaga myndanir í dag, við höfum aldrei séð svona áður,“ segir John Sonntag stjórnandi IceBridge-verkefnisins hjá NASA í samtali við Science Alert.
Margir hafa sett fram eigin kenningar í kjölfarið á birtingu myndanna, telja sumir að þarna hafi kafbátur verið á ferð, aðrir að þarna gæti verið einhver skyndilegur jarðhiti, á meðan aðrir telja einsýnt að þetta séu ummerki um geimverur.
Don Perovich, prófessor í íseðlisfræði við Dartmouth-háskóla, segir líklegast að ísinn þarna sé þunnur og mjúkur, holurnar hafi svo myndast þegar íshellan rekst í aðra íshellu.