Blaðakonan Leslle Horn hjá kanadíska vefmiðlinum Vice kom til Íslands um miðjan mars til að fara á raftónlistarhátíðina Sónar sem haldin var í Hörpu. Horn, sem var komin fimm mánuði á leið, segir að fólk hafi horft á hana með dæmandi augnaráði þar sem hún dansaði líkt og aðrir gestir. Hún skrifar:
„Á lífsleiðinni er maður sífellt að gera eitthvað í fyrsta skipti. Þegar maður er yngri drekkur maður áfengi í fyrsta skipti og fer á tónleika. Þegar aldurinn færist yfir eru þetta hversdagslegri hlutir eins og að elda á sous vide í fyrsta skipti eða leigja bíl. Nýlega fór ég í fyrsta skipti þunguð á tónlistarhátíð á Íslandi.“
Henni var flogið út af skipuleggjendum Sónar og hún var ánægð að sjá hversu hátíðin hér var smærri í sniðum en móðurhátíðin í Barcelona, þar sem áhorfendafjöldinn er í kringum 125 þúsund manns, jafn margir og búa í Reykjavík. Að ganga í fimmtán mínútur milli sviða hefði ekki hentað henni vel á þessum tímapunkti.
Horn, sem er þrítug, bjóst aldrei við því að vera í þessum sporum en fannst það í rauninni ekki órökrétt. Hún hafði farið á tónlistarhátíðir síðan á táningsaldri og það átti vel við hana.
„Sumt eiga þungaðar konur helst ekki að gera. Til dæmis borða sushi, sitja hest, keppa í jiu-jitsu og alveg örugglega ekki anda að sér málningargufum. En að fara á tónleikahátíð? Ekkert mál. En kæru lesendur takið eftir. Að taka inn MDMA, sveppi eða alkóhól eða einhver önnur nautnalyf sem gera tónleikaupplifun skemmtilegri er ekki ráðlagt af læknum. Þannig að ég fór bláedrú á Sónar og vonaði það besta.“
Horn hafði gaman að ferð sinni hingað en hún kom ásamt eiginmanni sínum. Atriðin, sem voru mestmegnis innlend og smærri erlend nöfn, fannst henni almennt séð mjög góð. Hún velti þó fyrir sér skorti af stórum nöfnum og hvort að budda hátíðahaldara hafi verið tæmd síðustu árin þegar flutt voru inn atriði á borð við Fatboy Slim, De La Soul og Sleigh Bells. Hápunkturinn var þegar hún áttaði sig á því að hún stæði við hliðina á sjálfri Björk. „Það er saga sem ég ætla að segja barninu mínu svo oft að það fær ógeð.“ En einnig að sjá Jóa P og Króla, sem voru uppáhalds íslenska atriðið hennar.
Hún segir að þungunin hafi vissulega haft áhrif á upplifunina af hátíðinni. Það hafi verið erfitt að ganga upp og niður stigana og á milli sviða. Þá hafi hún þurft að pissa á tíu mínútna fresti.
„Það er glatað að þurfa að viðurkenna að ég get ekki gert allt sem mig langar til að gera og að ég þurfi sífellt að setjast niður, taka pásur og drekka vatn. Ég er vön á hátíðum og hugsa alltaf vel um mig en þetta var allt önnur reynsla.“
Hún lét það þó ekki stöðva sig í að skemmta sér og ákvað meira að segja að dansa.
„Ég sá skrýtna svipi á andlitum fólks, sérstaklega á tónleikum Lindstrom þar sem ég gat loksins dansað og bömpað að vild. Þessir svipir fengu mig til að hugsa um mitt fyrra eigið álit á óléttum konum á hátíðum. Ég dæmdi líka. Ég man eftir að hafa séð ólétta konu á hátíð í Coachella og hugsaði hvað í fjandanum hún væri að gera þarna. Af hverju fara? Af hverju að bjóða sér upp á þetta? Nú veit ég að fólk var að hugsa það nákvæmlega sama um mig.“