Fréttir

Hún ætlaði bara að skipta peningaseðli – Það reyndist vera besta ákvörðun dagsins

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 19. júní 2017 07:25

Flestir hafa eflaust lent í því að vera með of stóran peningaseðil, t.d. 5.000 eða 10.000 kr, meðferðis og þurfa að skipta honum en fengið neitun hjá afgreiðslumanninum í versluninni. Þá þarf stundum að grípa til þess ráðs að kaupa eitthvað smávegis í versluninni, eiginlega bara það allra ódýrasta sem til er enda er markmiðið bara að skipta seðlinum.

Marilyn Scott, 27 ára íbúi í Kilmarnock í Skotlandi, lenti einmitt í aðstæðum sem þessum nýlega. Hún þurfti að skipta 10 punda seðli til að geta greitt fyrir strætómiða. Hún fékk seðlinum ekki skipt og ákvað því að kaupa sér skafmiða til að geta síðan greitt fyrir strætómiðann. Hún setti skafmiðann í töskuna sína og gleymdi honum.

Næsta dag mundi hún síðan eftir honum og skóf af honum. Þá kom í ljós að það hafði svo sannarlega borgað sig að kaupa miðann því á honum var vinningur upp á 250.000 pund að sögn Metro. Það svarar til rúmlega 30 milljóna íslenskra króna.

Metro hefur eftir henni að hún hafi varla trúað eigin augum þegar hún sá hvað hún hafði unnið og að hún hafi orðið að fá vinnufélaga sína til að staðfesta að þetta væri rétt.

Marilyn hefur ekki enn fastákveðið hvernig peningunum verður varið en hefur þó ágæta hugmynd um það. Hún ætlar í ferðalag og að hún ætlar að gefa móður sinni sérstaka gjöf en hún verður sextug innan skamms. Móðir hennar sagði oft við börnin sín að hún myndi fara með þau í Disneyland ef hún fengi lottóvinning og nú ætlar Marilyn að fara með móður sína og fjölskyldu í Disneyland. Hún reiknar síðan með að kaupa sér hús.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af