fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Orðið „fóstureyðing“ veldur konum sektarkennd

Rætt um þungunarrof og kynfrelsi kvenna á Alþingi í dag- Þingmenn sammála tillögum starfshóps um endurskoðun á fóstureyðingarlögum

Auður Ösp
Mánudaginn 27. mars 2017 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er í rauninni stórskrýtin hugmynd að það sé annarra en konunnar sjálfrar að ákveða að hún skuli ganga með barn í níu mánuði og fæða með öllum þeim óþægindum og afleiðingum sem slíkt getur haft í för með sér fyrir viðkomandi. Í því felst sjálfræðissvipting sem á sér ekki hliðstæðu. Við myndum til dæmis ekki þvinga fólk til að gefa úr sér líffæri þó að vitað væri að það bjargaði lífi annars,“ sagði Logi Ein­ars­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, á Alþingi í dag en þar fór fram sérstök umræða um þung­un­ar­rof og kyn­frelsi kvenna.

Benti Logi á að 93,8% allra tilfella þungunarrofs eigi sér t.d. stað fyrir 12. viku meðgöngu. „Þá er ekkert fóstur komið til skjalanna. Þá er um að ræða frumuklasa sem verður að fósturvísi en er ekki orðinn að fóstri. Meiri líkur en minni eru á að hann deyi án inngrips en getur orðið að fóstri á tólftu til fjórtándu viku. Orðið fóstureyðing er beinlínis gildishlaðið, villandi og jafnvel rangt. Í því getur birst ónærgætni sem þegar verst lætur er til lítils annars en að valda sektarkennd hjá konum. Það er því sjálfsagt og nauðsynlegt að breyta nafninu úr fóstureyðingu í þungunarrof,“

sagði Logi jafnframt og bætti við að efla þyrfti að efla kynfræðslu og kenna körlum að sýna meiri ábyrgð.

Starfshópur á vegum velferðarráðuneytisins hefur nú lagt fram tillögur að lagabreytingum sem miða að því að þungaðar konur fái sjálfstæðan rétt til að ákveða hvort þær gangi með fóstrið eða láti binda enda á meðgönguna, án þess að þurfa til þess greinargerð heilbrigðisstarfsmanna.

Lagt er til að konur fái einar og sér að taka ákvörðun um fóstureyðingu. Einnig er lagt til að aðgerðin verði heimil að ósk konu fram að lokum 22. viku þungunar eða þar til fóstur telst hafa náð lífvænlegum þroska. Þá er lagt til í skýrslu hópsins að í stað þess að nota hugtakið fóstureyðing verði hugtakið þungunarrof notað. Fóstureyðingarhugtakið er að mati hópsins gildishlaðið hugtak og er orðið fóstureyðing talið hafa neikvæða merkingu.

Lagabreytingatillögurnar hafa vakið töluvert umtal síðan skýrsla hópsins var birt á vef velferðarráðuneytisins í lok febrúar, og sitt sýnist hverjum. DV ræddi við nokkra álitsgjafa í byrjun mars.

Samfélagið er gjörbreytt

Niðurstöður skýrslu starfshópsins voru ræddar á Alþingi í dag þar sem máls­hefj­andi var Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir, þingmaður Pírata. Lýsti hún yfir stuðning sínum við skýrslu starfshópsins og innti jafnframt Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra eftir svörum við því hver afstaða hans væri við niðurstöðum skýrslunnar.

„Þungunarrof, kynfrelsi kvenna og afnám allrar mismununar, þá sérstaklega gagnvart fötluðum einstaklingum, eru að mínu mati mikilvægustu leiðarstefin um framhald þessarar umræðu og við heildarendurskoðun laga um þennan málaflokk sem ég tel afar mikilvæga,“ sagði Þórhildur og bætti við á öðrum stað:

„Samfélagið er gjörbreytt, viðhorfin önnur og forræðishyggja sem stendur sjálfsákvörðunarrétti kvenna fyrir þrifum ætti að heyra sögunni til.“

Þá svaraði Óttarr að hann væri í megindráttum sama sinnis því sem fram kemur í skýrslunni. Þær þjóðfélagsbreytingar sem átt hafa sér stað undanfarna fjóra áratugi gefi tilefni til að bæta um betur. Nauðsyn­legt væri að gera breyt­ing­ar á lög­um til að tryggja rétt hvers ein­stak­lings yfir eig­in lík­ama og ákvörðun um fóst­ur­eyðing­u, og aðgang­ur að ör­ugg­um fóst­ur­eyðing­um yrði að vera greiðari.

Þá sagði hann mikilvægt að sú vinna sem framundan er færi fram í sem allra mestu samráði við almenning allan, sérstaklega í tilfelli málaflokks sem á við landsmenn alla, „en alveg sérstaklega helming landsmanna sem eru konur.“

Fagnar umræðu um kynfrelsi kvenna

Annar þingmaður sem kvaddi sér hljóðs á fundinum var Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem sagði ávallt brýna ástæðu til að ræða sjálfsákvörðunarrétt kvenna.

„Það er því sérstakt fagnaðarefni að í þessari samantekt varðandi endurskoðun á heildarlöggjöf um þetta mál er meginþráðurinn að endurspegla nýja sýn á rétt kvenna og sjálfsforræði og að konur eigi rétt á að taka ákvörðun um eigin líkama og eigin framtíð. Það er grundvallarbreyting á því að það sé konan sjálf en ekki nefnd sérfræðinga eða einstakir sérfræðingar sem þekki betur til hennar lífs eða aðstæðna en hún sjálf.“

Hún sagði það einnig vera fagnaðarefni að tekin væri sérstaklega fyrir umræða um kynlíf og kynfrelsi kvenna. Minntist Hildur á bók sem hún gaf út fyrir nokkrum árum þar sem hún tók saman kynferðislegar fantasíur íslenskra kvenna. Í þeirri umræðu hafi hún orðið vör við mikla fordóma um það hvernig konur ættu að haga sér.

„Til dæmis var ein sagan þar um að ein konan hafði haft kynferðislega fantasíu um að eignast barn,sem lýsir vel hvað við erum að kljást við hér. Þetta er allt af sama meiði. Við eigum að líta á það á sama hátt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Í gær

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum