fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Ferðalagið hefði getað drepið mömmu

Dayana sakar lækni á Læknavaktinni um alvarleg læknamistök -Kraftaverk að Ana skyldi lifa af 30 klukkustunda ferðalag frá Íslandi til Brasilíu með þrjá blóðtappa

Kristín Clausen
Þriðjudaginn 28. febrúar 2017 13:00

Dayana sakar lækni á Læknavaktinni um alvarleg læknamistök -Kraftaverk að Ana skyldi lifa af 30 klukkustunda ferðalag frá Íslandi til Brasilíu með þrjá blóðtappa

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hugsaðu þér ef hún hefði komið aftur heim til sín í líkkistu?“ Þetta segir Knútur Einar Knudsen sem segir að meint læknamistök hefðu getað kostað tengdamóður sína lífið. Atvikið átti sér stað í nóvember 2016 en Ana Maria Alves, sem er búsett í Brasilíu, hafði dvalið á Íslandi hjá dóttur sinni, Dayönu Alves, og Knúti í tæpa þrjá mánuði þegar annar fótleggurinn hennar byrjaði að bólgna fjórum dögum áður en hún átti flug aftur til Brasilíu.

Bólgan og verkirnir stigmögnuðust með hverjum deginum sem leið. Þegar Ana komst loks á leiðarenda eftir 30 klukkustunda ferðalag var fóturinn orðinn svo stokkbólginn að hún gat með engu móti stigið í hann. Henni var samstundis ekið á sjúkrahús þar sem brasilískir læknar fundu þrjá blóðtappa í fætinum. Þeir segja það kraftaverk að Ana skyldi lifa ferðalagið af. Hjónin kvörtuðu undan lækninum sem hitti Önu á Íslandi áður en hún hélt til Brasilíu, til Embættis landlæknis, og eru gríðarlega ósátt við þau svör sem fengust í málinu. Þau telja málið skýrt dæmi um grafalvarleg læknamistök.

Fótleggurinn svartur og fjólublár

Dayana og Knútur hafa verið gift í 10 ár og búið á Íslandi öll sín hjúskaparár. Í ágúst í fyrra kom Ana í fyrsta skipti til Íslands til að heimsækja dóttur sína og tengdason en hún dvaldi á Íslandi í þrjá mánuði áður en hún hélt af landi brott þann 21. nóvember síðastliðinn. Ferðalagið á milli Íslands og Brasilíu er mjög langt en samtals þurfti Ana Maria að taka fjögur flug til að komast á áfangastað.

„Við tókum eftir því, nokkrum dögum áður en mamma átti bókað flug heim, að vinstri fótleggur hennar byrjaði smátt og smátt að bólgna. Þetta leit út fyrir að vera bjúgur en daginn áður en hún átti að fara var okkur alveg hætt að lítast á blikuna. Fóturinn var orðinn svartur og fjólublár,“ segir Dayana. Í framhaldinu fóru þau hjónin með Önu Mariu á Læknavaktina í Kópavogi.

„Mamma harkar alltaf allt af sér. Fyrst hún samþykkti að fara þá var eitthvað mikið að.“

Eftir nokkra bið á Læknavaktinni tók læknir á móti þeim og hjónin röktu veikindi Önu dagana á undan. „Okkur grunaði að þetta væri bjúgur en auðvitað er undarlegt að fá bara bjúg á annan fótinn,“ segir Dayana en eftir að læknirinn var búinn að mæla blóðþrýsting Önu, sem var innan eðlilegra marka, mælti hann með því að hún fengi sér teygjusokk. Hann sagði að fyrst blóðþrýstingurinn væri eðlilegur þá væri ekkert alvarlegt að hrjá Önu.

Ana kom til Íslands í ágúst til að heimsækja dóttur sína og tengdason. Rétt áður en Ana hélt aftur heim fór að síga á ógæfuhliðina því annar fótur hennar bólgnaði mjög.
Á Íslandi Ana kom til Íslands í ágúst til að heimsækja dóttur sína og tengdason. Rétt áður en Ana hélt aftur heim fór að síga á ógæfuhliðina því annar fótur hennar bólgnaði mjög.

Þá ráðlagði hann Önu að hreyfa sig mikið í háloftunum til að koma í veg fyrir blóðtappa. Að auki skrifaði hann upp á lyf gegn bjúg fyrir Önu en ráðlagði henni að taka þau ekki fyrr en eftir að hún væri komin heim til Brasilíu.

Ekki ástæða til að fresta fluginu

„En hugsaðu þér. Þetta var bara eins og rússnesk rúlletta. Hvort hún kæmist lífs eða liðin frá því að heimsækja dóttur sína til Íslands.“

Í greinargerð vegna kvörtunar Önu til Embættis landlæknis segir læknirinn, sem tók á móti henni á Læknavaktinni, að samkvæmt því sem hann skrifaði hjá sér hafi Ana verið með bjúg í nokkrar vikur, en ekki nokkra daga líkt og fram kemur í kvörtunarbréfinu sem Dayana skrifaði fyrir hönd móður sinnar. Læknirinn kveðst ekki geta útskýrt misræmið.

Í greinargerðinni segir meðal annars: Mín greining var sú að um bjúg væri að ræða vegna „insufficens“ á bláæðum. Hún bað ákveðið um bjúgtöflur en vegna fyrirhugaðs ferðalags taldi ég ekki heppilegt að hún tæki slík lyf fyrir ferðalagið. Mínar ráðleggingar lutu að því að fyrirbyggja blóðtappa og því ráðlagði ég henni að hreyfa sig talsvert í vélinni. Ef ástandið myndi versna mikið þá leita sem fyrst til læknis við heimsóknina. Vitað er að langar flugferðir ýta undir myndun blóðtappa í fótleggjum. Ég lét hana hafa milt þvagræsilyf og verkjalyf. Þar sem sjúkdómsgreining mín var sú sem ég greini hér að ofan sá ég ekki ástæður til að hún frestaði fluginu.

Þá segir í niðurlagi greinargerðar læknisins: „Ég harma mjög veikindi Önu og það er einlæg von mín að hún nái sér að fullu sem fyrst.“

Þegar komið var til München var Ana orðin svo slæm að hún þurfti að nota hjólastól til að komast leiðar sinnar.
Í hjólastól Þegar komið var til München var Ana orðin svo slæm að hún þurfti að nota hjólastól til að komast leiðar sinnar.

Fjögur flug í 30 klukkustundir

Morguninn eftir læknisheimsóknina fór Ana í fyrsta flugið af fjórum. Dayana og Knútur fylgdu henni til Þýskalands en þegar þau komu til München í Þýskalandi var Ana orðin svo slæm að hún þurfti að nota hjólastól til að komast leiðar sinnar á flugvellinum.

„Fótleggurinn á henni var orðinn tvöfaldur og næstum því svartur. Við gerðum allar þær ráðstafanir sem við gátum fyrir Önu svo ferðalagið yrði henni sem þægilegast. Auðvitað hefði hún ekki átt að fara í þetta ferðalag. En þar sem læknirinn sagði að það væri í lagi þá ákváðum við að breyta ekki flugmiðunum. Auðvitað hlustuðum við á lækninn. Hann er með sérþekkingu, ekki við,“ segir Knútur. Þess vegna óraði þau ekki fyrir símtalinu sem þau fengu frá systur Dayönu, sem tók á móti móður þeirra á flugvellinum í Salvador, tæpum sólarhring eftir að þau kvöddu hana í München.

Rússnesk rúlletta

„Ferðalag Önu gekk vægast sagt mjög illa. Hún átti erfitt með að hreyfa sig sem læknar í Brasilíu vilja meina að hafi í raun bjargað henni þar sem blóðtappar geta farið á flakk um líkamann við hreyfingu. Það þurfti að klippa buxurnar af henni í síðasta fluginu, þær voru orðnar svo þröngar. Þegar Ana komst loks á leiðarenda gat hún með engu móti stigið í fótinn. Henni var því ekið beinustu leið á sjúkrahús. Læknirinn sem tók á móti Önu átt ekki til aukatekið orð þegar hann heyrði sögu hennar. Þegar hann fann svo þrjá blóðtappa í fætinum sagði hann að það væri kraftaverk að hún væri enn á lífi. Það væri lífshættulegt að fljúga með einn blóðtappa. Hvað þá þrjá,“ segir Knútur og viðurkennir að þeim hjónum hafi verið gríðarlega brugðið þegar þau fréttu af því að Ana væri komin á sjúkrahús í Salvador.

„Við treystum lækninum 100 prósent. Það eru mistök sem við þurfum að glíma við það sem eftir er. En hugsaðu þér. Þetta var bara eins og rússnesk rúlletta. Hvort hún kæmist lífs eða liðin frá því að heimsækja dóttur sína til Íslands.“

Þá segir Dayana: „Það var ekkert gert fyrir hana. Auðvitað átti að senda okkur beint á bráðamóttökuna og láta okkur aflýsa fluginu. Hann talaði aldrei um að hún gæti verið með blóðtappa sem er ástæðan fyrir því að fóturinn á henni bólgnaði svona upp. Hún var allan tímann með blóðtappa en ekki bjúg.

Ferðalagið hefði getað drepið mömmu. Það get ég aldrei fyrirgefið. Ég er ekki læknir og hafði enga hugmynd um hvernig þetta hefði getað endað,“ segir Dayana sem er alls ekki sátt við svarið frá Embætti landlæknis þar sem henni þykir mál móður sinnar skýrt dæmi um alvarleg læknamistök. Betur hefur gengið hjá Önu en ætla mátti í fyrstu en ástand hennar var mjög alvarlegt fyrst eftir komuna til Brasilíu. Hún var nýlega útskrifuð af sjúkrahúsi og er farin að vinna hluta úr degi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Í gær

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Í gær

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum